Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:20:13 (2478)

1997-12-17 10:20:13# 122. lþ. 45.92 fundur 141#B rafmagnseftirlit# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:20]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Málsmeðferð varðandi rafmagnseftirlit í landinu á undanförnum allmörgum árum er mikil raunasaga. Hún sýnir það og það mundi koma skýrt fram rökstutt ef farið væri ofan í saumana á þessum málum, hversu tvísýnt það er að fara í uppstokkun á málum eins og hér var gert. Ég vil ekki með því segja að ekki hafi verið þörf á einhverjum breytingum varðandi það opinbera kerfi sem sinnti þessum málum. En trúin á einkavæðinguna hefur borið ráðherra þessara mála á undanförnum árum mjög úrleiðis, svo ekki sé meira sagt, inn á villigötur þar sem markaðskreddan er hefur ráðið ferðinni. Hæstv. núv. iðnrh., ráðherra Framsfl., er haldinn þessu ekki síður en forverar hans sem hafa fetað þessa slóð, ráðherrar Alþfl. sem áttu hér hlut að máli á árum áður. Ég tel og tek undir með hv. 8. þm. Reykv. í mati hans á því að staðhæfingar ráðherrans um ágæti hins nýja kerfis séu rangar. Það séu fullyrðingar sem ekki byggi á efnislegum rökum. Alveg sérstaklega tel ég augljóst að gagnrýnin á núverandi stöðu mála eigi við varðandi landsbyggðina. Ég geri ráð fyrir því að dæmin séu ærin í þéttbýlinu, en á landsbyggðinni er alveg ljóst að þar hefur þessum málum hrakað stórlega og það á bæði við um eftirlit gagnvart íbúum, þ.e. gagnvart íbúðarhúsum og í þéttbýli, en það á einnig við um rafveitur og umgengni almennt um þessi mál, þar á meðal umhverfismál. Mér er það kunnugt af Austurlandi (Forseti hringir.) að þar var þessum málum mjög vel sinnt, af Rafmagnseftirliti ríkisins á fyrri stigum mála og sú breyting sem gerð var hefur verið mjög til hins verra.