Athugasemd í umræðu um fyrirspurn

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:40:07 (2514)

1997-12-17 11:40:07# 122. lþ. 45.93 fundur 145#B athugasemd í umræðu um fyrirspurn# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka skýr svör við fyrirspurn minni. Í því tiltekna tilviki áðan var það svo að seinni ræða fyrirspyrjandans var nauðsynleg til þess að skýra ákveðna staðhæfingu sem kom fram í máli hæstv. ráðherra. Það var einmitt sú skýring sem gaf tilefni til þess að ég hugðist varpa fram ákveðinni fyrirspurn í framhaldi af svari fyrirspyrjanda til hæstv. ráðherra.

Almennt vil ég segja að ég tel að á síðustu árum hafi orðið ófarsæl þróun að menn eru í vaxandi mæli að semja um hvernig eigi að haga umræðu. Ég tel t.d. þegar um er að ræða utandagskrárumræðu eigi ekki í öllum tilvikum eins og nú er orðið að semja um tímalengd. Ég tel að það sé ákveðið haft sem þar er bundið á þingræðið.

En ég ítreka að ég er sammála þeirri skoðun sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að í rauninni hafði forseti ekki stoð til þess að meina mér orðsins en ég tel nauðsynlegt að reglur af þessu tagi séu ekki bara kynntar, það er ekki heldur nóg. Þær hafa ekki lagastoð þrátt fyrir það. Þess vegna verður að taka þær inn í lögin um þingsköp. En að öðru leyti ætla ég ekki að gera neina sérstaka athugasemd við skörulega þingstjórn hæstv. forseta.