Lögbundin skólaganga barna og unglinga

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:56:51 (2522)

1997-12-17 11:56:51# 122. lþ. 45.7 fundur 322. mál: #A lögbundin skólaganga barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:56]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. menntmrh. er eftirfarandi:

Hve mörg börn og unglingar, sem komið er í fóstur eða búa utan lögheimilis sveitarfélags, njóta ekki lögbundinnar skólagöngu? Er ráðherra kunnugt um að þess eru dæmi að tregða skólayfirvalda til að taka við þessum nemendum hefur valdið því að þeim er ekki valin bestu fósturheimili sem völ er á?

Hvað hyggst ráðherra gera til að tryggja að öll börn fái notið lögbundinnar skólagöngu?

Þetta eru fyrirspurnir sem lúta almennt að réttindum allra barna og allra unglinga en í fjölmiðlum að undanförnu hefur eitt tiltekið mál verið í umfjöllun. Ungum dreng, sem hefur verið komið í fóstur utan lögheimilis sveitarfélags síns, hefur verið meinuð skólaganga á sínum nýja dvalarstað. Allar skóladyr á því svæði sem drengurinn býr nú eru honum lokaðar og hefur svo verið í allt haust, í þrjá mánuði. Haft er eftir fósturmóður drengsins orðrétt í blaðaviðtali, með leyfi forseta:

,,Það hefur ekkert gerst í þessu máli. Ég hef reynt ítrekað en það virðist engin lausn í sjónmáli. Ég hef skrifað menntamálaráðuneytinu en þeir vísa á sveitarfélögin. Menn vísa hver á annan og það er eins og enginn vilji taka á þessu og leysa þetta.``

Þetta er haft eftir fósturmóður drengsins í blaðaviðtali í gær en þar er einnig rætt við forstjóra Barnaverndarstofu, Braga Guðbrandsson, en Barnaverndarstofan hefur einnig komið að málinu. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í ummæli forstjóra Barnaverndarstofu. Hann segir:

,,Sú staða virðist vera uppi að vandræðagangur vegna skólamála er farinn að hafa verulega neikvæð áhrif á fósturráðstafanir. Þegar þarf að finna þessum börnum sem ekki geta búið á eigin heimili nýtt heimili, þá erum við því miður að sjá dæmi þess að næstbesta og jafnvel þriðja besta heimilið er valið fyrir börnin því skólamálin eru ekki í lagi þar sem besti kosturinn er. Heimilið er undirstaðan fyrir þessi börn og það þarf að geta mætt þörfum þeirra. Mér finnst það algerlega óþolandi að hindranir varðandi skólagöngu verði til þess að börnunum er ekki tryggt besta heimilið.``

Þetta segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

Nú er það á ábyrgð menntmrn. og hæstv. menntmrh. að tryggja að öll börn fái notið lögbundinnar skólagöngu. Þess vegna er þessum spurningum beint til hæstv. ráðherra. Hvað hyggst hann gera til að tryggja að öll börn fái notið lögbundinnar skólagöngu?