Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 11:47:13 (2904)

1997-12-20 11:47:13# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[11:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef engu að bæta við það sem ég sagði um ákvæði 2. gr. og skilning á því hvað í því felst. Ég held að sá skilningur sé mjög vel valdaður og hann er skýr í nefndarálitinu og hefur komið hér fram í umræðum.

Varðandi það að sjóðfélagar eigi sjóðina, þá er það að sjálfsögðu þannig. Þetta er lífeyrissparnaður sjóðfélaganna. En hv. þm. verður á hinn bóginn að átta sig á því að hér er um félagslega sameign að ræða. Það er mjög mikilvægt að menn bæði skilji og virði það. Það felst í eðli hóptryggingarinnar að um félagslega sameign er að ræða. Ég stend að áliti efh.- og viðskn. og er flutningsmaður brtt. sem þar eru á ferðinni. Ég tel að þar séu þær lagfæringar sem þurfi að gera á þessu frv. og mun að sjálfsögðu standa að þeim og því samkomulagi sem þar liggur til grundvallar og ekki greiða öðrum brtt. atkvæði, enda tel ég að brtt. hv. þingmanna hvað varðar 1. gr. sé að hluta til á misskilningi byggð, þ.e. að því leyti að hún horfir fram hjá þeirri staðreynd að lífeyrissjóðirnir eru í eigu aðildarfélaganna í formi félagslegrar sameignar.