Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 12:01:02 (2908)

1997-12-20 12:01:02# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:01]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og brtt. við frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frv. þetta fjallar sem kunnugt er um að ekki eigi lengur að vera hægt að fyrna aflahlutdeild í sjávarútvegi. Málið hefur að sjálfsögðu verið rætt í efh.- og viðskn. og nefndin fékk nokkra menn á sinn fund.

Rætt var sérstaklega um orðalag lokamálsliðar 3. mgr. nýrrar greinar sem yrði 50. gr. A, þ.e. 2. gr. frumvarpsins, en í greininni segir að um hagnað vegna sölu á ófyrnanlegum réttindum skv. 1. mgr. 50. gr. A fari skv. 5. og 6. mgr. 14. gr. skattalaga, en í 1. gr. frumvarpsins er síðastnefnd ákvæði að finna. Þá segir í ákvæðinu að verðmæti keyptra réttinda sem ekki er heimilt að fyrna sé eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Þó sé heimilt að telja til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður. Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að réttindin geti fallið niður, t.d. með því að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi verði lagt af.

Til nánari skýringar á því hvað megi telja til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. telur meiri hluti nefndarinnar rétt að árétta að verðmæti réttindanna teljast að fullu til rekstrarkostnaðar ef þau falla alveg niður. Séu verðmætin hins vegar skert verulega með lögum án þess að þau falli alveg niður telst verðmætaskerðingin hlutfallslega til rekstrarkostnaðar. Og brtt. sem nefndin gerir er einmitt til þess að árétta þetta í lagatextanum.