Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:19:48 (2918)

1997-12-20 13:19:48# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:19]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hér er auðvitað um huglægt mat þingmannsins að ræða og ég geri engar athugasemdir við það mat hans. Ég er raunar sammála því að það þurfi að lækka verðið og æskilegt yrði að áhrif frv. yrðu þau að lækka það sem mest. Ég tel að það mikilvægasta varðandi stjórn fiskveiða sé að taka verðmætin niður eins og kostur er.

Ég er hins vegar kannski ekki alveg sammála mati hans á áhrifum frv. á verðgildið í náinni framtíð. Um það getum við ekki deilt mikið frekar. Við getum bara haft mismunandi skoðun á því. Ég bendi á að í frv. eru, þrátt fyrir hin almennu ákvæði þess að banna afskriftir á kaupverði aflaheimilda, ákvæði sem heimila niðurfærslu kaupverðs með því að flytja söluhagnað á milli, ákvæði um frestun á söluhagnaði og ákvæði um gjaldfærslu á kaupverðinu við þau skilyrði að verðmæti aflaheimilda breytist vegna síðari lagabreytinga sem hefðu áhrif á verðmæti þeirra. Þeir sem eru að kaupa sér veiðiheimildir eru ekki vissir um hvenær lagabreytingar verði gerðar og hvaða áhrif þær muni hafa. Þess vegna má vænta þess að verðið muni lækka eitthvað. Engu að síður getur væntanlegur kaupandi gert ráð fyrir að verði gerðar lagabreytingar sem hafi áhrif á verðgildið getur hann treyst því að geta fært þá breytingu til gjalda á sínum rekstrarreikningi. Að því leyti býr hann við mjög mikið öryggi.