Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:30:01 (2923)

1997-12-20 13:30:01# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, RG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:30]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Allflest mál sem afgreidd eru hér á Alþingi eru í raun samkomulagsmál. Almennt gerir fólk sér ekki grein fyrir því hve oft stjórn og stjórnarandstaða sameinast um þau þingmál sem hér eru afgreidd. Svo rík mynd er sú mynd að hér sé verið að takast á um mál stjórnar og stjórnarandstöðu. Oft kemur fyrir að fram kemur stjfrv. sem harkalega er deilt um við 1. umr. en þegar það kemur úr nefnd styðja þingmenni minni hlutans málið. Ástæðan er sú að við umfjöllun nefndar hafa breytingartillögur verið unnar eftir faglega yfirferð. Nefndin hefur leitað umsagnar fjölmargra og kallað fag- og hagsmunaaðila á sinn fund. Þessi vinna þingnefndar hefur gjarnan varpað ljósi á álitamál og oft orðið til þess að þingmenn sameinast um breytingar. Þetta þekkjum við.

Þegar álitamál eru varðandi stjórnarfrv. er vinna þingnefndar mjög mikilvæg jafnvel þó ekki náist sátt um niðurstöðu. Umfjöllun hefur verið fagleg og þá er hægt að vísa til lögfræðilegrar niðurstöðu ef um það er að ræða og eftir stendur fyrst og fremst pólitískur ágreiningur um málið. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar skattamál eiga í hlut. Þegar skattabreytingar eru gerðar í tengslum við fjárlagagerð á hraðferð í gegnum þingið sjá menn oft ekki fyrir afleiðingar þeirrar löggjafar. Á liðnum árum höfum við alþingismenn oft sagt okkar í milli, þegar slík mistök eru rædd, að í raun og veru ætti að banna með lögum að breyta skattalögum síðar en í maí til gildistöku á næsta almanaksári. Þannig væri hægt að kortleggja fyrir haustið hvort skattlagningin reynist réttlát og hvort á lagasetningunni séu annmarkar sem menn sáu ekki fyrir.

Við erum alltaf að leita réttlætis í að jafna þær byrðar sem kostnaðurinn við velferðarþjóðfélagið leggur okkur á herðar. Þau vinnubrögð sem ég hef hér nefnt mundi leggja ríkisstjórn þær skyldur að viðhafa faglegri vinnubrögð en við eigum að venjast. Þetta sjónarmið hefur komið fram jafnt hjá stjórnarliðum og stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Ekki síst hjá stjórnarliðum sem finnst óþolandi að vera knúðir til að styðja lagabreytingu á þessum tíma árs þegar störf nefnda eru í algleymingi.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara ítarlega í efnisatriði þessa frv. Það hefur talsmaður þingflokks jafnaðarmanna, Ágúst Einarsson, gert mjög vel. Hann hefur fjallað um að ekki muni lengur hægt að fyrna keyptar heimildir sem áður voru afskrifaðar um 20% á ári og hvernig fara á með sölu aflaheimilda. Það sem er athygli vert og við hljótum að halda á lofti er að ekkert er fjallað um verðmæti úthlutaðra heimilda með hefðbundnum hætti, heldur eingöngu þá eign sem felst í heimildinni þegar hún er seld öðrum. Með þessu frv. er eingöngu verið að fjalla um skattameðferð á heimildum sem útgerðarmenn selja sín á milli eftir að þeir hafa fengið heimildina ókeypis og selja hana síðan. Þá er hún metin sem eign og skattlögð við sölu. Við bendum helst á þetta og vinnubrögðin við þetta frv. Það var ekki tími til að leita umsagna eða þess lögfræðiálits sem boðað var að kallað yrði eftir við 1. umr. málsins. Þó hefur komið í ljós við umræðuna að eftir standa mörg álitamál.

Eins hefur komið fram að ekkert knýr á um að lögfesta málið fyrir jól. Sýnt hefur verið fram á að hér er um mörg skatta- og lögfræðileg atriði að ræða og umræðan og andsvör og svör þingmann á þessum síðasta degi þingsins fyrir jól hefur dregið fram. Það var ekki hægt að hafa samráð við hagsmunaaðila og ekki hægt að fara í faglega vinnu þingnefndar sem ég hef bent á að er mikilvæg.

Talsmaður jafnaðarmanna, Ágúst Einarsson, gagnrýnir líka orðalag sem ekki á sér stoð í lögum. Það er gagnrýni vert, virðulegi forseti, að Alþingi afgreiðir lög í svo miklu bráðræði að álitamál hafa ekki verið könnuð nægjanlega. Að hafa í bráðabirgðaákvæðunum hortitti sem mönnum hefur yfirsést í fljótaskriftinni er auðvitað algerlega óviðunandi.

Ég ætla ekki að staldra við þessi álitamál sem Ágúst Einarsson fór svo ítarlega yfir. En ég ætla að vekja athygli á þeim orðum hans að hér er um flókið lagaverk að ræða, ætlað til að skattleggja sölu á heimild til að veiða óveiddan fisk okkar í sjónum. Óveiddan fisk sem ætti ekki að vera eign nokkurs manns áður en hann er veiddur af því að hann er sameiginleg auðlind okkar allra. Þeir sem selja heimildir til veiða hafa fengið heimildina gefins. Málið snýst um það.

Hvaða tími var þingmönnum gefinn til þess að meta flókið skattamál sem á að afgreiða hér á síðasta degi fyrir jól? Mál var lagt fram, virðulegi forseti, 5. desember sl. Það fór þegar til nefndar og nefndarmenn hafa vissulega reynt að skoða það eins og þeim er unnt. Það er strax komið til afgreiðslu þingsins eftir yfirferð í nefnd sem er störfum hlaðin. Hálfur mánuður er liðinn frá því að þessu þingmáli var dreift á borð þingmanna. Þetta eru vinnubrögðin sem ég gagnrýni í stuttri ræðu minni á síðasta degi þingsins. Ég tek undir harða gagnrýni Ágústs Einarssonar á vinnubrögðum.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hélt því fram að við ættum að afgreiða málið strax vegna þeirrar óvissu sem annars mundi verða stofnað til. Hér hefur verið lagt til málið verði kallað til baka, í janúar gefi menn sér tíma til að vinna við það og afgreiði strax og þing kemur saman. Allir ættu að geta umborið þá óvissu sem mundi skapast í þrjár vikur að loknum jólum. Við lokaumræðu málsins eru þingmenn að ræða það sín á milli, í stuttri umræðu, hvað niðurstaða þingnefndarinnar geti þýtt, hvað þessi löggjöf geti þýtt og hvaða afleiðingar hún geti hugsanlega haft. Sín á milli hafa þeir sýnt fram á að það er engin niðurstaða í málinu og alls ekki ein skoðun á því hverjar afleiðingarnar verði.

Virðulegi forseti. Við viljum að allir leggi sinn skerf til þeirra samfélagslegu verkefna sem ríkisútgjöldin eru. En það þarf að gefa sér tíma til að skoða allar hliðar máls þegar um skattalagabreytingar er að ræða og kanna hvort þær leiði til þess réttlætis sem við sækjumst eftir. Ég harma, virðulegi forseti, að hér og nú skuli örfáir þingmenn vera að ræða hugsanlegar afleiðingarnar af skattbreytingu sem er svo mikilvæg og varðar undirstöðuatvinnugreinina og helstu auðlindin okkar.