Skaðabótalög

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:56:37 (2928)

1997-12-20 13:56:37# 122. lþ. 50.4 fundur 58. mál: #A skaðabótalög# (endurskoðun laganna) frv. 149/1997, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:56]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allshn. á þskj. 660 um frv. til laga um breyting á skaðabótalögum, nr. 50 frá 1993. Við meðferð málsins nú fékk nefndin til viðtals við sig Benedikt Bogason og Ólaf W. Stefánsson frá dómsmálaráðuneyti, Guðmund Jónsson, Sigrúnu Guðmundsdóttur og Gest Jónsson frá nefnd um endurskoðun skaðabótalaga, Rúnar Guðmundsson frá Vátryggingaeftirlitinu og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða með skaðabótalögum verði breytt þannig að dómsmálaráðherra fái lengri frest til framlagningar frumvarps til breytinga á skaðabótalögum til að nefnd sú sem falið hefur verið að endurskoða lögin fái nauðsynlegt svigrúm til að ljúka störfum, enda að ósk þeirrar nefndar að þessi frestur verði veittur.

Allshn. hefur á síðustu árum fjallað mikið um skaðabótalögin. Á 120. löggjafarþingi flutti allshn. frv. til laga um breytingu á skaðabótalögum en þá hafði nefndin látið vinna greinargerð um æskilegar breytingar á lögunum. Í greinargerð með frv. sagði m.a., með leyfi virðulegs forseta:

,,Nefndin leggur því til að dómsmálaráðherra verði falið að skipa nefnd sérfræðinga til að yfirfara skaðabótalögin í heild sinni. Í þeirri endurskoðun yrði þó sérstaklega hugað að skaðabótum fyrir líkamstjón, meðal annars með hliðsjón af þeim tillögum sem allsherjarnefnd lét vinna og þeim athugasemdum sem fram komu í nefndinni. Þeirri nefnd verði gert að ljúka störfum það tímanlega að ráðherra geti eigi síðar en í október 1997 lagt tillögur nefndarinnar fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps.``

Eins og áður segir hefur nefnd sú sem endurskoðaði skaðabótalögin óskað eftir frekari fresti vegna þess að hún telur að enn skorti fullnægjandi upplýsingar um tjónakostnað bifreiðatrygginga vegna líkamstjóna eftir gildistöku skaðabótalaganna 1. júlí 1993. Telur nefndin að slíkar upplýsingar séu forsenda þess að unnt sé að meta áhrif einstakra tillagna, sem nefndin kynni að gera, á iðgjöld bifreiðatrygginga. Þá telur nefndin að hún hafi fengið misvísandi upplýsingar um fjölda bótaskyldra slysa sem leiða til bótagreiðslu fyrir líkamstjón og að senn líði að því að slys, sem urðu síðari hluta árs 1993 og árið 1994, verði að mestu uppgerð. Því ættu brátt að liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar til að unnt verði að meta áhrif skaðabótalaganna á bætur vegna líkamstjóna og er nauðsynlegt að þær upplýsingar liggi fyrir þegar breytingar eru lagðar til á lögunum.

Við meðferð málsins í allshn. kom fram að skaðabótalaganefndin hafði óskað eftir því við Samband ísl. tryggingafélaga og síðar einnig Vátryggingaeftirlitið, að teknar yrðu saman upplýsingar um tjónabætur sem greiddar hafa verið í 921 líkamstjóni sem urðu á seinni hluta árs 1993 eftir gildistöku skaðabótalaganna. Neituðu bæði Samband ísl. tryggingafélaga og Vátryggingaeftirlitið þessari beiði nefndarinnar. Beitti allshn. sér fyrir því að skaðabótalaganefndin fengi þær upplýsingar sem nauðsynlegar væru og fylgdi málinu eftir. Erindi frá Vátryggingaeftirlitinu barst allshn. svo í gær þar sem skýrt var frá því að eftirlitið muni fara yfir öll umrædd tjónamál með það í huga að fá fram heildartjónakostnað. Telja þeir að slík athugun muni taka einhverja mánuði og munu þeir hefjast handa strax í byrjun næsta árs.

Virðulegi forseti. Allshn. telur mikilvægt að Vátryggingaeftirlitið hraði þessari vinnu sinni eins og mögulegt er og skaðabótalaganefndin ljúki vinnu sinni sem fyrst eftir að allra upplýsinga hefur verið aflað því að enda þótt í frv. komi fram að ljúka eigi málinu eigi síðar en í október 1998 leggur allshn. ríka áherslu á að endurskoðunarnefndin ljúki störfum þannig að unnt verði að ganga frá nauðsynlegum lagabreytingum á vorþingi 1998.

Allshn. mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt og undir álitið skrifa Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Árni Ragnar Árnason, Hjálmar Jónsson, Svavar Gestsson og Kristján Pálsson. Jóhanna Sigurðardóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.