Húsaleigubætur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 15:08:24 (2940)

1997-12-20 15:08:24# 122. lþ. 50.6 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[15:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það frv. sem tekið er á dagskrá um húsaleigubætur er nú komið til 3. umr. og lokaafgreiðslu í þinginu og vildi ég segja nokkur orð við það tækifæri.

Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs er að orðið hefur töluverð umræða við bæði 1. og 2. umr. málsins um að húsaleigubætur væru skattskyldar og hafa margir ræðumenn tekið til máls um það efni og lýst andstöðu við það. Ég vil einnig nefna að við 2. umr. málsins þegar ég fjallaði um það mál óskaði ég eftir að beina ákveðnum spurningum til hæstv. fjmrh. um það mál en hann var á þeirri stundu ekki viðstaddur umræðuna þannig að ég beindi því til forseta að ég mundi þá við 3. umr. málsins leggja spurningar mínar fyrir hæstv. fjmrh.

Við atkvæðagreiðslu um frv. við 2. umr. sat ég hjá við tvær greinar, m.a. þá grein þar sem kveðið er á um að ríkissjóður skuli greiða árlega 280 millj. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem rennur til sveitarfélaga vegna greiðslna húsaleigubóta. Sá fyrirvari sem ég hafði þar á var vegna þess að ég tel að upphæðin tryggi ekki að sveitarfélögin geti hagað húsaleigubótum þannig að leigjendur verði jafnsettir eftir þessa breytingu og áður þar sem núna er stefnt að því að færa leiguna í leiguíbúð upp í raunkostnað, greiða fólki síðan húsaleigubætur. Mörg dæmi voru tiltekin um að eftir stæði ákveðinn mismunur frá 7.000 kr. og upp í allt að 20.000 kr. sem leigjendur mundu bera nema sveitarfélögin tækju þá á sig að greiða mismuninn og ég tel að þessar 200 millj. hrökkvi ekki til þess að öll sveitarfélög séu í stakk búin til að greiða mismuninn. Því vil ég við 3. umr. ítreka fyrirvara minn en engu að síður mun ég greiða frv. í heild atkvæði mitt en ítreka við lokaafgreiðslu málsins þennan fyrirvara.

Til stuðnings þeim rökum mínum að 280 millj. nægi ekki vitnaði ég í gögn sem fram hafa komið í málinu, m.a. skýrslu um framkvæmd húsaleigubóta þar sem segir að áætlaður kostnaður vegna húsaleigubóta ef öll sveitarfélög greiða húsaleigubætur sé á bilinu 390--650 millj. kr. og sveitarfélögin hafa sjálf áætlað í þeirri skýrslu að heildarupphæð bótanna verði 620 millj. kr., þ.e. 320 millj. kr. nettó miðað við núverandi kerfi í öllum sveitarfélögum að viðbættum 300 millj. kr. nettó vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis í sveitarfélögunum. Þjóðhagsstofnun áætlar á grundvelli skattaframtala á árinu 1995 að ef allir leigjendur undir tekjumörkum ættu rétt á húsaleigubótum væri heildarkostnaðurinn um 513 millj. kr.

Þá vík ég sérstaklega að því að skattleggja húsaleigubætur og ég óska eftir nærveru hæstv. fjmrh. Nú er það ekki nýtt og er ekki verið að taka það upp með frv. heldur voru húsaleigubætur strax skattskyldar og þeim var komið á 1995 um áramót. Sú sem hér stendur var þá félmrh. og átti þá í harðri deilu við hæstv. fjmrh. um skattskyldu húsaleigubótanna og niðurstaðan þá varð sú að hækka húsaleigubótagreiðsluna frá því sem áformað var sem nam skattinum þannig að leigjendur yrðu jafnsettir eftir sem áður. Ég gerði það í fyrsta lagi til þess að ná málinu fram á þingi og í annan stað í trausti þess að þegar málið yrði endurskoðað, næðist fram breyting í þessu efni að húsaleigubætur yrðu ekki skattskyldar.

Ég hef aldrei skilið rökin fyrir því og mér finnst að hæstv. fjmrh skuldi Alþingi skýringu á því og þeim þingmönnum sem hafa talað gegn því að húsaleigubætur séu skattskyldar af hverju hann leggst gegn því vegna þess að ég tel alveg ljóst að það er fyrst og fremst Sjálfstfl. og hæstv. fjmrh. sem hafa lagst gegn því að húsaleigubætur væru ekki skattskyldar. Maður spyr um rökin og hlýtur að bera saman það sem nærtækast er í þessu efni, vaxtabæturnar, sem er aðstoð hins opinbera við þá sem eru að eignast sína eigin íbúð að upphæðir í vaxtabótum erum um 3,3 milljarðar kr. og þetta er skattfrjálst. Þegar við erum að tala um, herra forseti, hópana sem eru verst settir í þjóðfélaginu, leigjendur, sem eru aldraðir, öryrkjar, námsmenn, einstæðar mæður o.s.frv., þá sem eru með tekjur á bilinu kannski 50 upp í 80 þús. kr., spyr maður hvort það þurfi að skattleggja viðkomandi. Hvaða jafnræði er í því að skattleggja leigjendur vegna húsnæðis sem þeir búa í en ekki þá sem eiga húsnæði? Húsaleigubætur hafa verið 200--250 millj. kr. og hafa verið skattskyldar. Nú erum við að tala um að öll sveitarfélög fara að greiða húsaleigubætur. Við erum að færa leiguna upp í raunkostnað. Allt þýðir þetta að húsaleigubæturnar verða meiri og þó að þær færu upp í 500--600 eða 650 millj. kr. erum við þó samt tala um verulega lægri fjárhæð en aðstoð hins opinbera er við þá sem eiga húsnæði sem eru 3,3 milljarðar á móti kannski 600 eða 650 millj. sem verður eftir þessa breytingu. Maður spyr bara: Hver eru rökin fyrir því? Það var tilefnið, herra forseti, fyrir því að ég kom upp að mér finnst hæstv. fjmrh. skulda Alþingi skýringu og að færa fram rök sín fyrir því að hann telur nauðsynlegt að skattleggja húsaleigubætur meðan vaxtabætur eru ekki skattskyldar. Ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson færðum fram fjölmörg dæmi fyrir því hvað þetta mundi íþyngja leigjendunum mikið, sérstaklega ef verið væri að færa leiguna upp í raunkostnað og mundi muna verulega um það ef bæturnar væru ekki skattskyldar. Um 2.400 íbúðir eru á vegum sveitarfélaganna þar sem hætt verður að niðurgreiða leiguna en fólk fær þess í stað húsaleigubætur. Þá fer þessi hópur að greiða skatt líka þannig að mér finnst að ráðherra þurfi að gefa Alþingi skýringu á því hvað hann telur nauðsynlegt að skattleggja húsaleigubætur, skattleggja fólk sem verst er statt og býr í leiguhúsnæði á meðan þeir sem eiga íbúðir og fá aðstoð hjá hinu opinbera gegnum vaxtabætur fá skattfrelsi á vaxtabótum.