Húsaleigubætur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 15:16:30 (2941)

1997-12-20 15:16:30# 122. lþ. 50.6 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[15:16]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég skal játa að ég hélt að ég þyrfti ekki að taka til máls um húsaleigubæturnar en ég neyðist til þess hér vegna fyrirspurna frá hv. þm. Ég held að eðlilegast sé að rifja aðeins upp tildrögin að málinu því að þetta er eitt af því fáa sem ég hef nokkuð séð eftir að hafa komið nálægt á pólitískum ferli mínum.

Öllum er ljóst að húsaleigubætur er hluti af félagslegri aðstoð sem sveitarfélögin eiga að veita. Þetta er sem sagt málefni sem heyrir undir sveitarfélögin, það hefur alltaf verið viðurkennt. En á sínum tíma barðist fyrrv. félmrh., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrir því með oddi og egg að koma á húsaleigubótum, algerlega burt séð frá því hvort sveitarstjórnirnar vildu þær eða ekki. Svo mikið gekk á í ríkisstjórninni á þeim tíma að þessu var nauðgað í gegnum ríkisstjórnina og fyrst og fremst vegna þess að menn töldu að með þeim hætti væri tryggt að þessi hv. þm. sæti áfram í ríkisstjórninni sem hafði tæpan meiri hluta á þingi. Það var meginástæðan fyrir því að menn samþykktu það á sínum tíma að fara í málið. Hún launaði félögum sínum í ríkisstjórninni með því að skella hurðum nokkrum dögum, vikum eða mánuðum síðar. En við sátum eftir með kerfi sem öllum var ljóst að gæti ekki gengið til frambúðar.

Sem betur fer voru sett í þessi lög sólarlagsákvæði. Hvað þýðir það? Það þýðir að tveimur árum seinna var skylt að fara ofan í málið og koma með nýja löggjöf og það er hún sem við erum að ræða í dag. Þessa forsögu verða menn að hafa í huga þegar þetta mál er rætt og auðvitað varð niðurstaðan sú þegar málið var til umræðu á milli ríkis og sveitarfélaga að færa málaflokkinn algerlega yfir og einu afskipti ríkisins verða þau að greiða inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga ákveðna fjárupphæð á hverju ári.

Ég rifja þetta upp líka vegna þess að Samband sveitarfélaga á sínum tíma tók hugmynd þáv. félmrh. heldur illa og fékk dræmar undirtektir þeirra sem störfuðu á vegum sveitarstjórnarmála sem töldu eðlilega að ríkisvaldið væri að fara inn á þeirra svið. Þetta var samt niðurstaðan.

Þegar samið var við sveitarfélögin ekki alls fyrir löngu, nánar tiltekið fyrr í þessum mánuði, og ritað undir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsleg málefni var samið um að ríkisvaldið legði til jöfnunarsjóðs 280 millj. Í raun sagði ríkið að 200 millj. ættu að nægja en fallist var á það til þess að ná sáttum og samningum að leggja meiri fjármuni til jöfnunarsjóðsins vegna þess fyrst og fremst að bæturnar eru skattlagðar. Það er ekki í fyrsta skipti sem ríkið þurfti að gera þetta því að í upphafi, og það er alveg hárrétt hjá hv. þm., þá taldi hv. þm. þegar hún var félmrh. að bæturnar ættu ekki að skattast og fékk út á það fjármuni þannig að tvisvar hafa verið settir fjármunir í þetta vegna þess að bæturnar ber að skatta. Þetta er í annað skipti sem verið er að gera það.

Svo spyr hv. þm.: Hvernig stendur á því að fjmrh. telur að það eigi að vera skattlausar bætur í skattkerfinu, þ.e. vaxtabætur og barnabætur, en síðan á að skattleggja húsnæðisbætur? Svarið er þetta: Tekjuhugtak íslenskra skattalaga er mjög víðtækt. Það hefur vissulega komið til greina og hefur oft verið til umræðu að það ætti að skattleggja bæturnar sem eru í skattkerfinu. Það var t.d. síðast til umræðu í svokallaðri jaðarskattanefnd að það væri kannski eðlilegt. En við ákvörðun þeirra bóta er samt tekið tillit til þess að þær eru skattlausar. Ef þær yrðu skattaðar, þá mundi áreiðanlega aðferðin við að koma þeim út til þeirra sem á þurfa að halda vera önnur en í dag.

Ég minni á að bætur almannatryggingakerfisins eru skattaðar. Fjármunir sem sveitarfélögin greiða í félagslega aðstoð eru skattaðir. Með öðrum orðum, það er ein grundvallarregla að tekjuhugtakið sé mjög víðtækt og það væri að fara á svig við þá meginreglu ef við tækjum húsnæðisbæturnar, sem eru ekki bætur innan skattkerfisins, út fyrir sviga í þessum efnum því að þá mundu menn auðvitað spyrja næst: Hvers vegna á ekki að færa undan skattheimtunni aðrar bætur sem við erum að borga úr sameiginlegum sjóðum? Þetta verða menn að hafa í huga þegar verið er að ræða þetta mál og eins hitt að það er tvívegis búið að taka tillit til þessa atriðis með því að leggja fram aukið fé vegna skattlagningarinnar.

Þá segir hv. þm.: Já, en af hverju á að gera mun á því að fólk sem er að byggja eða kaupa húsnæði og getur fengið fjármuni eða skattfrádrátt vegna þess úr vaxtabótakerfinu meðan hitt fólkið sem leigir fær ekki húsaleigubæturnar frádregnar? Ástæðan er einfaldlega sú að í mörgum tilvikum er þetta sama fólkið. Það er nefnilega þannig hér á landi að það er ekki alltaf fólk sem byrjar að leigja sem leigir síðan alla ævina. Flestir hafa verið leigjendur. Þeir verða síðar kaupendur að húsnæði þannig að ekki er verið að skipta þjóðinni í tvennt, í leigjendur og eigendur. Það er alls ekki verið að því því að í flestum tilvikum eru menn leigjendur einhvern tíma ævinnar og eignast síðan húsnæði á öðrum tíma ævinnar.

Auðvitað mætti segja: Við skulum bara hætta við að hafa vaxtabætur eða greiða niður húsnæðisverð fyrir fólk. Það er ein leiðin og meira að segja hafa erlendar stofnanir bent okkur á það æ ofan í æ að það væri líkast til heppilegra fyrir okkur hér á landi að a.m.k. samræma þær reglur sem gilda um húsnæðiskaup, þær reglur væru allt of flóknar. Það er hárrétt og hv. þm. á stóran þátt í því að hafa gert þær reglur svo flóknar og erfiðar að þær eru meira að segja í sumum tilvikum að setja sveitarfélög á hausinn. (JóhS: Hvað áttu við?) Það eru reglurnar um Húsnæðisstofnun ríkisins og sérstaklega Byggingarsjóð verkamanna. Ég er sammála því að það mætti gjarnan stokka upp allar þessar reglur. En til þess að hafa þetta eingöngu svar við fyrirspurn hv. þm. er svarið ósköp einfaldlega þetta: Inni í þeirri upphæð sem er um að tefla er búið að setja fjármuni sem jafngilda sköttum. Nú veit enginn í raun og veru hvað það er há upphæð nákvæmlega því að það er verið að færa fjármuni oft til fólks sem er undir skattleysismörkunum. Hér á landi, þar sem tekjuhugtakið er mjög víðtækt og nær nánast til allra tekna, verðum við að hafa þetta alveg sérstaklega í huga að hlutföllin eru nokkuð há í tekjuskattinum en það eru há skattleysismörk þannig að margt af því fólki sem fær styrki á borð við húsaleigubætur er fólk sem nær ekki upp í skattleysismörkin. Þetta verða menn að hafa í huga þannig að það er ekki heldur sjálfsagt út frá því sjónarmiði að bæturnar séu skattlausar.

Ég vona, virðulegi forseti, að ég hafi skýrt þetta. Ég skal viðurkenna það að ég hef reynt ótal sinnum fyrr á ævinni að skýra þetta út fyrir hv. þm. og mér hefur ætíð mistekist en þó varð niðurstaðan sú á sínum tíma þegar við sömdum um það kerfi að bætt var við fjármunum inn í kerfið og um það var samið. Við sömdum okkar á milli en ég skal viðurkenna að mér tókst aldrei að útskýra það fyrir hv. þm. af hverju mætti ekki vera skattleysi þegar kemur að húsaleigubótunum þannig að ég efast um að mér takist það eitthvað fremur nú en þá. En í þeirri von að aðrir átti sig á hversu tekjuhugtakið hér á landi er víðtækt kaus ég að koma hér upp og reyna að skýra þetta út.