Reglur um endurgreiðslu á ferðakostnaði sjúklinga

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:16:54 (3225)

1999-02-03 14:16:54# 123. lþ. 58.3 fundur 257. mál: #A reglur um endurgreiðslu á ferðakostnaði sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:16]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Þegar ég talaði um algenga sjúkdóma áðan, þá talaði ég út frá þeim reglum sem eru í gildi í dag. Við hefðum ekki tekið þær til endurskoðunar nema vegna þess að okkur finnst þær ekki réttlátar í öllum tilvikum.

Vegna þess að hv. þm. sagði að sérfræðiþjónusta hefði lagst af úti á landi víða vil ég taka fram að það ekki rétt. Við höfum aukið sérfræðiþjónustu víðast úti á landi, sent sérfræðinga á sjúkrahúsin úti á landi. Það er einmitt til að létta þá byrði að sjúklingar þurfi ekki að leita til Reykjavíkur í stórum stíl.

Aftur á móti vildi ég nefna að víða á sjúkrahúsum úti á landi hefur fæðingum fækkað verulega vegna þess að erfitt hefur verið að manna þessi sjúkrahús með ljósmæðrum og læknum. Þær kröfur sem gerðar eru í dag gera það að verkum að fæðingar hafa sums staðar lagst af, því miður.

Ég held að ég hafi svarað þeim spurningum sem fyrir mig voru lagðar og þakka hv. þm. fyrir þessar spurningar.