Fjarnám og fjarkennsla

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:38:03 (3235)

1999-02-03 14:38:03# 123. lþ. 58.8 fundur 268. mál: #A fjarnám og fjarkennsla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að í þessum málum eru breytingarnar mjög örar og aðstaðan hefur að ýmsu leyti breyst frá því að hann lagði fram fsp. sína í nóv. sl. og spurði þá einkum um tvö atriði einkum, þ.e. fjarnám, fjarkennslu annars vegar og símenntun hins vegar.

Afgreiðsla hv. fjárln. á fjárlagafrv. og síðan fjárlögin núna endurspegla þær áherslur sem alþingismenn leggja á þennan málaflokk. Menntmrn. er nú að vinna að því verkefni að sjá til þess að þetta fé nýtist sem best til fjarkennslu annars vegar og símenntunar hins vegar. Sérstök nefnd er starfandi innan ráðuneytisins, þverfagleg nefnd, ef þannig má orða það, til þess að vinna að þeirri undirbúningsvinnu sem er nauðsynleg til þess að þau markmið náist sem fjárlögin marka og einnig þau markmið sem ráðuneytið hefur sett sér í þessu efni. En segja má að stefna ráðuneytisins hafi verið mótuð snemma árs 1996 þegar út kom ritið Í krafti upplýsinga --- tillögur menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni. Þar segir m.a. um markmið varðandi fjarkennslu, með leyfi hæstv. forseta:

,,Kostir fjarkennslu verði nýttir markvisst til að jafna aðstöðu til náms jafnt innan lands sem erlendis frá.

Menntastofnanir hafi aðgang að gagnabanka sem sérstaklega er settur upp með þarfir fjarkennslu og rafrænna samskipta í huga.

Innviðir rafræna samskiptakerfisins hér á landi verði styrktir og þróaðir þannig að ætíð sé kostur á því besta sem tækni á þessu sviði býður.

Samband Íslands við umheiminn verði eflt og treyst svo að einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki geti notið fulls öryggis í notkun rafrænnar samskiptatækni í samskiptum við önnur lönd.``

Þessum markmiðum hefur í mörgu tilliti verið náð því að komið hefur verið á laggirnar öflugu rafrænu samskiptakerfi, bæði með tölvum og einnig með fjarfundabúnaði sem hefur m.a. verið styrktur af Byggðastofnun þannig að menntastofnanir eru nú betur í stakk búnar að veita fjarnám en nokkru sinni fyrr og við sjáum aukið samstarf á milli háskóla annars vegar og framhaldsskóla hins vegar að þessu leyti og þróunin er mjög ör og mun halda áfram. Einnig hafa tækifæri hvað varðar notkun tölvutækninnar til fjarkennslu og fjarnáms margfaldast. Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur verið miðstöð þeirrar þróunar. Því tilraunatímabili er nú lokið og fleiri framhaldsskólar sækja um að geta boðið fjarkennslu og þróunin verður vafalaust sú að hún verður víða í boði.

Ég hef einnig lagt áherslu á að menn hugi að því að sá hugbúnaður sem notaður er til fjarkennslu verði samræmdur þannig að hér á landi verði einn hugbúnaður notaður eins og frekast er kostur til þess að veita tækifæri til fjarnáms og það er ákvörðun sem ráðuneytið er nú að vinna að.

Varðandi símenntunarmálin og símenntunarþáttinn, þótt þetta sé nátengt, er rétt að rifja upp að í sumar skilaði nefnd skýrslu til ríkisstjórnarinnar um símenntun og unnið hefur verið að framkvæmd þeirrar skýrslu eða þeirra tillagna síðan. Verkefnisstjórn um símenntun, fimm ára átak í símenntun, tók nýlega til starfa undir formennsku Þóris Hrafnssonar, sem menntmrh. skipaði formann í þessari verkefnisstjórn með sex fulltrúum sem skipaðir eru af Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga og félmrn., Hinu íslenska kennarafélagi og fræðsluaðilum á almennum markaði. Þessi verkefnisstjórn er að hefja störf og hún mun vinna að framkvæmd þeirra tillagna sem fram komu í skýrslunni Símenntun, afl á nýrri öld, sem fjallað var um á síðasta ári.

Á þessu sviði er einnig er verið að vinna samkvæmt skýrt mótaðri stefnu og markmiðin eru skýr bæði varðandi fjarnámið, fjarkennsluna og símenntunina. Á þessu ári er aukið svigrúm til þess að veita bætta þjónustu á þessum sviðum og markmiðið er að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtist sem best.