Kennsla í íslensku

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:16:27 (3251)

1999-02-03 15:16:27# 123. lþ. 58.11 fundur 416. mál: #A kennsla í íslensku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:16]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í sjálfu sér hvílir engin lagaskylda á menntmrn. í þessu efni en ráðuneytið hefur frá árinu 1993 veitt styrki til fræðsluaðila til að halda námskeið í íslensku fyrir útlendinga frá ákveðnum málsvæðum. Einkum er lögð áhersla á önnur málsvæði en germönsk.

Að jafnaði hefur verið miðað við að styrkurinn nemi um 2/3 hluta kostnaðar. Flest námskeiðin eru 40--70 stunda löng. Þau lengri eru blanda af íslenskukennslu og verklegri kennslu með áherslu á hugtök og talþjálfun.

Á árunum 1993--1997 hafa hátt í 1.500 útlendingar notið slíkrar kennslu með styrk frá ráðuneytinu. Námskeiðin eru fyrst og fremst ætluð þeim útlendingum sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi til eins árs eða lengur og er erlent verkafólk nokkuð stór hluti þessa hóps, einkum Pólverjar. Einnig hefur erlent verkafólk sem hefur dvalið styttri tíma í landinu tekið þátt í námskeiðunum, einkum ef atvinnurekendur hafa einnig veitt styrki.

Í júní 1997 skilaði nefnd sem ég skipaði í september 1995 um málefni útlendinga álitsgerð um stöðu og þátttöku útlendinga í íslensku samfélagi. Í álitsgerðinni er gerð sú tillaga að útlendingum sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi til eins árs eða lengur með varanlega búsetu í huga standi til boða allt að 500 stunda kennsla í íslensku með ívafi af fræðslu um íslenskt samfélag, réttindi og skyldur. Einnig verði verklegum þáttum vafið inn í kennsluna eftir því sem þurfa þykir.

Þá er í álitsgerðinni gerð sú tillaga að hlutaðeigandi stjórnvöld athugi hvort skylda eigi atvinnurekendur til að greiða kostnað vegna íslenskunámskeiða fyrir útlendinga sem þeir ráða tímabundið til starfa sbr. 6. gr. laga nr. 133/1994. Þessi álitsgerð ásamt skýrslunni ,,Aðlögun Íslendinga af erlendum uppruna og stefnumótun í málefnum þeirra``, sem kom út á árinu 1997, var til athugunar hjá starfshópi sem félmrh. skipaði haustið 1997 í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um það efni. Sá starfshópur hefur skilað skýrslu til félmrh.

Í menntmrn. er unnið að námskrá í íslensku fyrir útlendinga á fullorðinsaldri og mun þessi námskrá verða gefin út á næstunni.