Menningarhús

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:29:54 (3256)

1999-02-03 15:29:54# 123. lþ. 58.12 fundur 420. mál: #A menningarhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hugmyndin um uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni er góð. Mikilvægt er að efla menningarlíf á landsbyggðinni í því skyni að bæta þar búsetuskilyrði. Þegar áform ríkisstjórnarinnar um byggingu menningarhúsa voru kynnt í byrjun ársins vakti strax athygli að Vesturland var eitt landsbyggðarkjördæma ekki inni í myndinni varðandi byggingu menningarhúsa á landsbyggðinni, a.m.k. ekki í fyrsta áfanga. Skýringin virðist vera sú að Vesturland er of nálægt höfuðborgarsvæðinu. Á þessa skýringu get ég ekki fallist, enda má benda á að fólk í Borgarfirði, á Snæfellsnesi og í Dölum býr ekki í þeirri nálægð við höfuðborgarsvæðið að það geti daglega sótt suður til þess að njóta menningar og listviðburða.

Menntmrh. mun skipa sérstaka nefnd til að útfæra þessar hugmyndir frekar. Það er út af fyrir sig gott mál og vil ég óska eftir því að þessi nefnd fái þau skilaboð varðandi Vesturland sem ég hef hér komið á framfæri. Það er óásættanlegt að Vestlendingar verði settir hjá á þennan hátt.

Víða eru myndarleg félagsheimili og önnur menningarhús á landsbyggðinni og þá ekki síst á Vesturlandi. Ég hvet væntanlega nefnd til að beina sjónum að því að hagnýta þá aðstöðu sem fyrir hendi er og að hún verði notuð til að efla og styrkja menningarlíf. Full þörf er á því eins og fram hefur komið.