Menningarhús

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:34:12 (3259)

1999-02-03 15:34:12# 123. lþ. 58.12 fundur 420. mál: #A menningarhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir að taka þetta upp vegna þess að ég held að full þörf hafi verið á því. Það er sérstakt að hlusta á þennan mikla fögnuð þeirra hv. þm. sem hér hafa talað, stjórnarliða, yfir því að nú eigi að reisa fimm menningarhús á landinu.

Ég vil hins vegar taka undir þau orð hv. fyrirspyrjanda þar sem minnt er á það mikla menningarstarf sem er alls staðar um landið og býr við afar bág kjör og litla styrki frá ríkisvaldinu. Það vill svo til að einmitt á meðan verið er að ræða þessa fyrirspurn, þá var lagt á borð hv. þingmanna svar menntmrh. við fyrirspurn hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur, Gísla S. Einarssonar og Kristínar Halldórsdóttur um ráðstöfun óskiptra liða í fjárlögum sem snúa akkúrat að þessu, þ.e. framlög til safna, til leiklistar og ýmissar listastarfsemi vítt og breitt um landið. Ég bið hv. þingmenn um að skoða þessar tölur og velta því svo fyrir sér hvort sérstök þörf sé á nýjum húsum eða menningarhöllum og hvort ekki væri nær að styðja við þá starfsemi sem fyrir er.