Náttúrugripasafn Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:13:31 (3447)

1999-02-10 15:13:31# 123. lþ. 63.5 fundur 429. mál: #A Náttúrugripasafn Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli en verð þó að geta að í fyrstu spurningunni sýnist mér vera fullyrðing sem ekki stenst, sem er kannski prentvilla, þar sem stendur: ,,... m.a. frá árinu 1992 þegar Náttúrugripasafnið (sýningarsafn) var gert að sameign Náttúrufræðistofnunar Íslands, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.`` Það var aldrei samþykkt.

Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort rætt hafi verið um frekara samstarf vegna þess að nú verður Reykjavík menningarborg Evrópu á næstunni og þar á að leggja sérstaka áherslu á menningu og náttúru og er erfitt að sjá hvernig það verður gert án þess að tekið verði sérstaklega á þessum málum. Það eru engir sérstakir fjármunir settir í Náttúrugripasafn Íslands á fjárlögum. Það er bara innan ramma sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur á meðan það eru framlög til náttúrugripasafna sem staðsett eru úti á landsbyggðinni, sem var einmitt ástæða þess að hv. þáv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, barðist á sínum tíma á móti þessu. Hann vildi að safnið yrði staðsett úti á landi.