Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:28:28 (3453)

1999-02-10 15:28:28# 123. lþ. 63.6 fundur 448. mál: #A framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:28]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er aðeins örstutt og ekki miklu við að bæta. Það var aðallega það að því miður hef ég ekki upplýsingar um fjölda einstaklinga eða manna í stjórnum og nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins þannig að ég hef ekki fyrir mér hvað þetta hlutfall sé hátt en það er greinilega umtalsverð breyting á tveimur árum, að konum hafi fjölgað úr 34 í 88. En auðvitað kann nefndunum að hafa fjölgað líka þannig að það segir ekki að þetta sé hlutfallsleg aukning, gæti verið eitthvað minna í hlutfalli en það virðist svona í tölum talið.

Af því að hv. fyrirspyrjandi sagði að sannarlega hefði ekki veitt af því að taka til hendinni í umhvrn. þá veit ég ekki hvort hún meinti það vegna þeirra breytinga sem hér hafa orðið á. En ég hygg að kannski sé ástæða til þess að taka meira til hendinni í sumum öðrum ráðuneytum en einmitt í umhvrn. Ég held að þar hafi verið nokkuð vel að þessum málum staðið frá því að það ráðuneyti var stofnað, enda ráðuneytið ungt og þessi viðhorf verið að þróast á undanförnum árum. En gæti verið í eldri og grónari ráðuneytum og eldri og grónari málaflokkum að þar væri þetta eitthvað öðruvísi.

Ég gæti til gaman skotið því inn í í lok umræðunnar að ég sat í dag fund forstöðumanna stofnana landbrn. Ætli þar hafi ekki setið 20 karlar á bekk eða svo en engin einasta kona. Þar er vissulega líka unnið að breytingum eins og ég vænti að komi fram í svari mínu sem kemur skriflegt til hv. þm. að beiðni hv. fyrirspyrjanda á næstu dögum.