Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:31:03 (3454)

1999-02-10 15:31:03# 123. lþ. 63.92 fundur 239#B húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár og beina máli mínu til hæstv. menntmrh. vegna þess vandræðaástands sem hefur blasað við að óbreyttu í húsnæðismálum Nemendaleikhússins eða Leiklistarskóla Íslands. Eins og kunnugt er hefur sú starfsemi verið til húsa í Lindarbæ um langt skeið. Það húsnæði var áður leigt af fyrri eigendum sem voru stéttarfélög en var fyrir nokkru síðan keypt af ríkinu og hefur nú verið ákveðið að ráðstafa því til annarra þarfa. Þar með hefur legið fyrir um nokkurt skeið að leiklistarskólinn yrði að rýma þetta húsnæði en af hálfu stjórnenda þar hefur að sjálfsögðu verið gerður sá fyrirvari að fullnægjandi úrlausn yrði að fást í húsnæðismálum Nemendaleikhússins.

Það hefur hins vegar gengið seint að fá botn í þau mál og sjálfsagt ýmislegt sem komið hefur til. Þar á meðal hefur lengi staðið til að stefna yrði mótuð eða ákvarðanir teknar um uppbyggingu listaháskóla og hér er á ferðinni ein af þeim stofnunum sem væntanlega yrði þar til húsa eða hluti af þeirri starfsemi.

Þegar hinir nýju eigendur eða hinir væntanleg nýju notendur fóru að hefjast handa um að breyta húsnæðinu var farið að huga að því hvar Nemendaleikhúsið gæti fengið inni en engin niðurstaða hafði þó fengist í því þegar hafist var handa um framkvæmdir og farið var að skerða þá aðstöðu sem er til starfsemi í Lindarbæ, taka frá hluta af aðstöðu baksviðs o.s.frv. Í bígerð var að leysa a.m.k. tímabundið húsnæðisvanda Nemendaleikhússins með því að innrétta kjallara í Landssmiðjuhúsinu svokallaða þar sem skólinn að öðru leyti er til húsa en í ljós kom að þær framkvæmdir munu taka mun lengri tíma en áætlað var og kæmu ekki til með að leysa úr húsnæðisþörf Nemendaleikhússins á þessum vetri. Engu að síður hafa framkvæmdir haldið áfram og er nú svo komið að að óbreyttu yrði aðstaðan í Lindarbæ ónothæf til þeirrar starfsemi sem þar hefur farið fram á vegum Nemendaleikússins og er því skjótrar úrlausnar þörf.

Það er mjög bagalegt, herra forseti, þegar slíkar aðstæður koma upp á miðju skólaári og röskun verður á skólastarfi af þeim sökum og vekur nokkra undrun að þeir hlutir geti gerst að Nemendaleikhúsið sé skyndilega á götunni ef svo má að orði komast á miðju skólaári. Hljóta yfirvöld þessara mála, bæði skólastjórnendur og menntmrn., en á ábyrgð þess er þessi starfsemi, að þurfa að svara fyrir það ástand sem þannig er að skapast. Á mannamáli, herra forseti, held ég að ekki sé annað hægt en að kalla þetta klúður. Ég hef því leyft mér að leggja ákveðnar spurningar fyrir hæstv. menntmrh. í þessu sambandi sem ég sendi honum í gær eftir að ég hafði óskað eftir umræðu þessari um málið. Spurningarnar eru þessar:

Hvaða skýringar eru á þeim vanda sem upp er kominn í húsnæðismálum Nemendaleikhússins?

Er mögulegt að semja um frestun á afhendingu Lindarbæjar til nýrra afnota þannig að leiklistarskólinn geti lokið skólaárinu í húsnæðinu?

Hvaða önnur úrræði koma til greina í húsnæðismálum Nemendaleikhússins svo ljúka megi skólaárinu að mati ráðuneytisins?

Herra forseti. Þetta eru spurningar mínar til hæstv. menntmrh. Það verður fróðlegt að heyra svör hans og ekki væri verra ef í ljós kæmi að hæstv. ráðherra hefði brett upp ermar og gengið í að leysa málið.