Endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:06:37 (3557)

1999-02-15 15:06:37# 123. lþ. 65.1 fundur 245#B endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Seinast þegar lög um tekjustofna sveitarfélaga voru endurskoðuð, líklega skömmu fyrir 1990, voru hinir pólitísku fulltrúar eingöngu frá stjórnarflokkunum. Svo langt gekk það að meðan nefndin var að störfum voru stjórnarskipti og hv. þm. Halldór Blöndal, sem sæti átti í nefndinni af hálfu Sjálfstfl., líklega frá 1987 til haustsins 1988, hvarf úr nefndinni og í nefndina kom fulltrúi frá stjórnarflokki.

Hugmynd mín er að fara aðra leið og hafa einn fulltrúa frá stjórnarandstöðunni í þessari nefnd. Ég get svarað því að ég mun óska eftir því að þarna verði einn stjórnarandstæðingur. Út af fyrir sig hefði verið gaman að hafa fulltrúa frá öllum stjórnarandstöðuflokkum. Hitt er svo annað mál að það hefur verið mikið los á stjórnarandstöðunni um þessar mundir og maður veit nú ekki vel hverjir verða með hverjum. Hv. þm. getur verið rólegur yfir því að rödd stjórnarandstöðunnar á þessu kjörtímabili mun heyrast í þessari nefnd.