Símalínur og tengibúnaður Landssímans á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:21:19 (3568)

1999-02-15 15:21:19# 123. lþ. 65.1 fundur 247#B símalínur og tengibúnaður Landssímans á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það hefur verið mér mikið áhugamál að reyna að finna leiðir til þess að víkka net breiðbandsins sem mest út, og ég geri mér vonir um að á síðari hluta þessa árs og raunar á þessu ári takist að ná fram mikilsverðum árangri.

Um þau sérstöku vandamál sem hv. þm. drap á og tengjast dreifbýlinu og strjálbýlinu er það að segja að það er laukrétt hjá hv. þm. að þarna er um tæknilega erfiðleika að ræða sem mjög dýrt og erfitt er að bregðast við. Á hinn bóginn er stöðugt verið að reyna að leita nýrra tæknilausna til þess að gefa þeim símnotendum sem hér um ræðir greiða leið að samnetinu. Það er stöðugt verið að vinna að þessu. Það á að fara að reyna nýjan tæknibúnað núna og það er auðvitað stefna mín og ég hygg ég megi segja Landssímans einnig að reyna að finna lausn á því sérstaka vandamáli sem hér var bryddað á.