Símalínur og tengibúnaður Landssímans á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:22:35 (3569)

1999-02-15 15:22:35# 123. lþ. 65.1 fundur 247#B símalínur og tengibúnaður Landssímans á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:22]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir þessar undirtektir.

Á dögunum var ég á ferðalagi í Skaftafellssýslu og kom m.a. í 10. bekk í grunnskólanum í Kirkjubæjarskóla og spurði unga fólkið þar: Hvað gerið þið í frístundum ykkar? Svarið var: Við erum á irkinu. Við erum einmitt að vinna í tölvunni okkar á internetinu. Og 80% nemenda í 10. bekk þessa skóla höfðu aðgang að internetinu.

Þess vegna er mjög brýnt, og ég hvet hæstv. samgrh. að skikka hreinlega Landssímann til að endurnýja þessar boðleiðir því að þetta er mjög brýnt mál fyrir dreifbýlið. Landssími Íslands er forríkt fyrirtæki og það er sjálfsagt mál að þeir verji ákveðnum peningum til að endurnýja þessar samgönguleiðir. Og ég treysti samgrh. til þess að svo megi verða.