Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:00:01 (3602)

1999-02-15 17:00:01# 123. lþ. 65.13 fundur 262. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgeiðsluhlutfall) frv., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:00]

Magnús Árni Magnússon:

Herra forseti. Jú, hárrétt er það og auðvitað er góðra gjalda vert að lækka endurgreiðslubyrðina á námslánunum og vil ég hvetja þingmanninn aftur til dáða í þeim efnum og þakka fyrir það sem vel hefur verið gert. En ég bendi líka á það sem vill stundum gleymast í umræðunni, að það vill svo til að við erum í rauninni í samkeppni við umheiminn um menntað vinnuafl eins og staðan er í dag. Í stað þess að skipta landinu upp í einhverja búta þar sem mismunandi endurgreiðsluhlutfall er á námslánum, ef menn vilja beita slíkum aðgerðum, sem ég er ekkert endilega viss um að sé sniðugt, hallast ég frekar að því að hafa eigi lága endurgreiðslubyrði fyrir alla námsmenn en að beita því þá frekar í þeim tilfellum þegar menn kjósa að flytjast aftur til Íslands að loknu námi erlendis eða láta þá sem kjósa að láta erlend ríki njóta starfskrafta sinna frekar greiða hærra hlutfall en þá sem flytja heim.

Ég minni á að ég er ekki að segja að þetta eigi að gera og ég vil minna á að ég er ekki að mæla því bót að það sé mismunandi endurgreiðslustig. Ég vil hafa lágt endurgreiðslustig fyrir alla námsmenn og að menn séu styrktir myndarlega til náms því að við skulum ekki gleyma því að menntun er sams konar sparnaður og fjárhagslegur sparnaður. Það er sparnaður í mannauði sem skilar sér margfaldur til baka þegar hann kemur aftur út á vinnumarkaðinn.