Vistvæn ökutæki

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:15:34 (3606)

1999-02-15 17:15:34# 123. lþ. 65.15 fundur 299. mál: #A vistvæn ökutæki# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:15]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótun stofnana í eigu ríkisins varðandi vistvæn ökutæki. Meðflutningsmaður minn er hv. þm. Magnús Stefánsson.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að mótuð verði sú stefna hjá stofnunum í eigu ríkisins að innan fimm ára skuli þriðjungur þjónustubifreiða í eigu ríkisstofnana vera knúinn vistvænum orkugjöfum.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Það er alveg ljóst að einn af stærstu mengunarvöldum meðal okkar Íslendinga er útlosun á koltvíoxíði og öðrum eiturefnum. Mest er um slíkt á höfuðborgarsvæðinu enda um 60% þjóðarinnar búsett hér.

Við þekkjum það, herra forseti, og höfum mátt sjá nú á síðustu dögum í vetrarstillum þegar mikið mengunarský leggst yfir borgina og samkvæmt mínum heimildum og úttektum sem á því hafa verið gerðar þá má rekja þetta ský til útblásturs frá bifreiðum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta má segja að sé einn mesti umhverfisvandinn á höfuðborgarsvæðinu og það snertir auðvitað metnað okkar sem þjóðar að vilja draga úr útblæstri og draga úr mengun á öllum sviðum. Þar eru sóknarfærin helst hvað varðar bíla þar sem um þriðjungur koltvíoxíðsmengunar okkar á upptök sín, og síðan er bent á fiskiskipaflotann þar sem annar þriðjungur á upptök sín.

Herra forseti. Á síðustu tveimur árum hafa orðið sérstaklega miklar breytingar í nýrri nýja tækni, tækni sem tengist efnarafölum, vetni og metanóli. Fleiri þætti mætti nefna svo sem rafmagnsbíla og ekki síður metangas sem orkubera eða orkugjafa fyrir bíla.

Það sem hefur gerst er að stjórnendur stærstu bílaframleiðenda veraldar hafa lýst því yfir að vetni og efnarafalar muni verða meginorkugjafar og orkuberar 21. aldarinnar og það hefur leitt til þess að nú á sér stað mjög hörð og grimm samkeppni milli þessara bílaframleiðenda um að verða fyrstir á markað með vistvænni ökutæki. Nokkrir þeirra, m.a. Daimler-Chrysler, hafa boðað fjöldaframleiðslu á slíkum bílum þegar árið 2005. Hið sama má í rauninni segja um orkudreifingarfyrirtæki nokkuð stór í veröldinni sem hafa tekið mið af yfirlýsingu bílaframleiðenda og vilja búa sig undir samkeppni sem byggir á nýrri tækni. Þetta þýðir með öðrum orðum að tækninni hefur fleygt fram og er í rauninni rétt tímaspursmál hvenær hún mun ryðja sér til rúms um allan heim.

Við höfum þegar séð dæmi þess hérlendis. Ég minni á að í nóvember sl. var haldin hér á vegum m.a. Iðntæknistofnunar, iðnrn. og umhvrn., ráðstefna í Ráðhúsi Reykjavíkur um vistvæn ökutæki. Þetta var mjög vel heppnuð ráðstefna og í tengslum við hana mátti sjá í og fyrir utan ráðhúsið nokkrar gerðir rafmagnsbíla, metangasbíl og jafnfram hugmyndir um framleiðslu vetnisbíla.

Hér hafa með öðrum orðum fyrstu skref verið stigin í þessa átt. Og nú þegar eru komnir sex rafknúnir bílar í almenna notkun hér á suðvesturhorninu og reyndar einn norður á Akureyri og mér er kunnugt um að nokkrir fleiri slíkir eru á leiðinni.

Hér er um að ræða mikil sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga. Við eigum að geta verið leiðandi á þessu sviði. Við höfum reynslu af því að skipta um orkugjafa, eins og þegar við fórum úr kolum og olíu yfir í hitaveitu. Það hefur vakið verðskuldaða athygli um allan heim. Og sú reynsla sem við sköpuðum okkur þar er orðin bein útflutningsvara okkar Íslendinga. Þetta er umhverfismál, þetta er efnahagsmál, tæknimál og menntamál, enda er það svo að hv. Alþingi og hæstv. ríkisstjórn hafa mótað stefnu hvað þetta varðar í verki með því að á þessu kjörtímabili voru felld niður tímbundin vörugjöld af vistvænum ökutækjum sem og þungaskattur. Afleiðing þess er m.a. sú að fyrstu ökutæki af þessum toga eru þegar komin í notkun.

Þá hefur það komið fram að Reykjavíkurborg hefur fyrir tilstuðlan nefndar á vegum Orkuveitu Reykjavíkur mótað þá stefnu að innan þriggja ára skuli um þriðjungur bifreiða á vegum borgarinnar vera knúinn vistvænum ökutækjum.

Herra forseti. Í ljósi þessa finnst mér ekki óeðlilegt að ríkisvaldið í ljósi stefnumörkunar sinnar stígi jafnákveðin skref og hér hefur verið lýst og setji sér það markmið að innan fimm ára verði þjónustubílar í eigu ríkisins knúnir vistvænum orkugjöfum. Fyrir því eru þau rök sem hér hafa verið nefnd og jafnframt er getið um í greinargerð með þáltill.

Herra forseti. Ég læt þessi orð duga um þáltill. og mælist til þess að að lokinni umræðu verði henni vísað til hv. umhvn. þingsins.