Skipan nefndar til að auka aga í skólum landsins

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:36:13 (3610)

1999-02-15 17:36:13# 123. lþ. 65.17 fundur 387. mál: #A skipan nefndar til að auka aga í skólum landsins# þál., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:36]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. flm. tillögunnar afsaki þó að ég komi hérna upp í þeim málum sem hann er að flytja. Ég veit að hann er tímabundinn, er að missa af flugvél og skal ég því reyna að hafa mál mitt stutt en þetta eru bara svo spennandi mál sem hann er með að ég get ekki orða bundist.

Ég vil taka undir þennan tillöguflutning. Ég þekki þennan skort á aga, bæði frá því að ég var sjálfur í skóla eða frá eigin æsku og því umhverfi sem ég ólst upp í. Þá er ég ekki að tala um heimili mitt heldur hið víðara samfélag, umhverfi og það sem ég hef kynnst í tengslum við þau störf sem ég hef gegnt undanfarin sumur í vinnuskóla í sveitarfélagi hér í nágrenninu, bæði sem flokksstjóri og yfirflokksstjóri.

Ég veit að ungmenni kunna vel að meta að þeim séu settar skýrar vinnureglur og kunna vel að meta það sem við getum kallað aga. Agi er afskaplega mikilvægur fyrir fólk sem er á mótunarskeiði og sérstaklega mikilvægur fyrir þjóðfélagið allt og þróun þess og velmegun í framtíðinni. Ungt fólk þarf á aga að halda.

Vandamálið er hins vegar nákvæmlega það sem hv. flm. kom inn á áðan að foreldrar hafa því miður í auknum mæli varpað uppeldisskyldum sínum á opinbera aðila, á skóla og jafnvel íþróttafélög eða aðra í umhverfi sínu og ekki er víst að þessir aðilar hafi verið alls kostar í stakk búnir til þess að takast þær skyldur á herðar. Ég vil t.d. benda á það skelfilega ástand sem komið er upp þegar foreldrar bregðast þannig við agaúrræðum opinberra aðila eða skólastofnana að senda lögfræðinga sína á þá. Þá erum við komin inn á hættulegar brautir. Þegar skólayfirvöld eru að reyna að beita þeim úrræðum sem þau hafa til þess að halda friðinn og vernda aðra nemendur fyrir ofbeldi af hálfu ungmenna í skólunum. Þess vegna fagna ég þessari tillögu og vona að hún leggi drög að úrræðum við þessum vanda.