Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:37:26 (3626)

1999-02-15 18:37:26# 123. lþ. 65.25 fundur 356. mál: #A jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar# þál., Flm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:37]

Flm. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson rakti um sögu jarðgangaumræðu á Austurlandi. Ekki ætla ég samt að taka undir þær pólitísku áherslur sem hann hafði um gangaröð en að öðru leyti er þetta allt saman rétt með farið að því sem ég þekki til.

Einnig er hárrétt að ekki er gert ráð fyrir jarðgangaframkvæmdum í langtímavegáætlun en um það hafði verið rætt að í hópi þingmanna yrði komist að einhverri niðurstöðu um jarðgangaröð. Hins vegar hefur það ekki verið gert. Það var trú okkar flm. að það mundi jafnvel flýta fyrir málinu að menn færu að ræða þessi mál af fullri alvöru ef fram kæmi tillaga þar sem væri kallað eftir umsögnum frá m.a. sveitarstjórnum því að það orð hefur vissulegið legið á að Austfirðingar gætu ekki komið sér saman um hvaða röð skyldi vera á jarðgangaframkvæmdum.

Það var tilgangurinn með þessu og það er von mín að þetta megi verða til þess að þingmenn fari að ræða þessar framkvæmdir af alvöru en það eru auðvitað áherslur okkar sem koma þarna fram um að það beri að byrja á jarðgöngum á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, ekki síst vegna þess að þetta er arðsöm framkvæmd í vegagerðarlegu tilliti og þessi jarðgöng koma til með að styrkja byggð á miðfjörðum og suðurfjörðum Austfjarða.