Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 11:01:38 (3911)

1999-02-19 11:01:38# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[11:01]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er fram haldið umræðu um nýtt frv. til jafnréttislaga sem við vorum að ræða í gær. Gildandi lög eru frá 1991 og því er löngu tímabært að uppfæra þau í takt við þá þróun í jafnréttisbaráttunni sem hefur átt sér stað á þeim áratug sem nú er að líða. Það er satt best að segja dálítið athyglisvert að sjá hve margt hefur gerst þó að það sé einnig rétt að á sumum sviðum hefur harla litlu miðað og þá einkum og sér í lagi á sviði launajafnréttis. Það er mitt mat að í þessu frv. horfi mjög margt til betri vegar og því fagna ég.

Hins vegar eru vonbrigði mín einnig töluverð og er það ekki síst vegna þess að ég sé ekki að það sé ætlunin að fara í þá kröftugu eftirfylgni sem nauðsynleg er ef þessi lög eiga yfir höfuð að hafa eitthvert gildi. Til þess að það sé hægt þarf mun meira fé og sterkari jafnréttisstofnun eða Skrifstofu jafnréttismála og einnig þarf að styrkja stöðu málaflokksins mun betur í stjórnsýslunni. Það eru aðeins tilburðir í þá átt í frv. en ekki nægjanlega miklir að mínu mati. Til dæmis kemur fram í kostnaðaráætlun að gert er ráð fyrir að frv. hafi í för með sér 1 millj. kr. útgjaldaauka á ári en þegar um eftirfylgni með jafnréttislögunum hefur verið að ræða þá hafa stundum verið bornar saman Samkeppnisstofnun og Skrifstofa jafnréttismála, þ.e. þær stofnanir sem fylgja eftir tveimur mikilvægum málaflokkum, annars vegar jafnréttislögunum og hins vegar samkeppnislögunum, og þar munar tugum milljarða í fjárframlögum. Mig minnir að hlutfallið sé að u.þ.b. 30 millj. fari til jafnréttismála á móti 80 millj. kr. til hins málaflokksins. Það eru sem sagt mjög mikil vonbrigði að þarna eigi ekki að gera stórátak því að eins og kom fram m.a. í máli formanns félmn. í gær þá var það hennar skoðun að það væri veikasti hlekkurinn í jafnréttisbaráttunni núna hve illa þessum lögum er fylgt eftir og ég er sammála því mati.

Í frv. kemur fram að ætlunin sé að bæta stöðu kynjanna almennt og þá ekki síst stöðu kvenna en þess sér í raun mjög óvíða stað hvað ætlunin er að gera. Ég vil þó nefna greinina sem kveður á um nefndir og ráð. Þar á greinilega að gera markvisst átak og ég fagna því. En að öðru leyti verður ekki séð hvað ætlunin er að gera til þess að bæta stöðu kvenna.

Ég mun fá tækifæri til þess að fara mjög vel yfir þetta mál í félmn. En því miður er málið svo seint fram komið að ég er mjög svartsýn á að það takist bæði að bæta þetta frv. eins og þyrfti að gera að mínu mati og að ná því að afgreiða það á þessu þingi þar sem þinglok eru í mars.

Mig langar að koma aðeins inn á nokkur atriði sem ég tel að séu athyglisverð en vil um leið kannski að gagnrýna. Það er í fyrsta lagi skipuritið, þ.e. hvernig á að taka á þessum málaflokki í stjórnsýslunni. Ég tel að það sé á vissan hátt til bóta að setja Skrifstofu jafnréttismála beint undir félmrh. En það sem mér finnst að þessu skipuriti er tvennt. Það er annars vegar um jafnréttisfulltrúa í ráðuneytum. Undir lið 1 í helstu nýmælum frv. er rætt um að jafnréttismálin eigi að ná til allra ráðuneyta. En jafnréttisfulltrúarnir í ráðuneytum eru settir mjög neðarlega í skipuritið þannig að ég sé ekki að þeir eigi að hafa beinan aðgang að félmrh. eins og t.d. reyndin var í Svíþjóð þar sem aðstoðarmenn ráðherra í öllum ráðuneytum voru í beinum samskiptum við jafnréttismálaráðherra þar, Monu Sahlin þegar hún var ráðherra. Þar voru jafnréttismálin því alveg á efstu stigum og þar af leiðandi tókst að samþætta þau inn í öll ráðuneytin. Ég mundi vilja gagnrýna þetta og færa jafnréttisfulltrúa í ráðuneytum mun ofar í skipuritið og helst að hafa þar menn eins og aðstoðarmenn ráðherra til að þetta verði mjög virkt.

Einnig tel ég að Skrifstofa jafnréttismála sé ekki styrkt nóg í þessu, a.m.k. get ég ekki séð að hún verði nægilega sterk þótt það komi væntanlega fram í fjárlögum hvers árs hversu mikið fé hún fær. Ég fagna því þó að hún eigi að sjá um eftirlit en vil hvetja til þess að hún fái aukið fjármagn til þess og einnig þarf t.d. að gera verulegt átak varðandi fræðsluþáttinn ef vel á að vera.

Ég fagna því einnig að skipan Jafnréttisráðs verði breytt. Ég tel að það hafi ekki verið málinu til framdráttar að þar hafa setið fulltrúar hagsmunaaðila, þ.e. ASÍ og VSÍ. Það er mín tilfinning að það hafi oft stöðvað góð mál og ég fagna því að þessu er breytt. Ég skal ekki segja hvort þetta er besta skipan ráðsins. Ég held að það væri rétt að ræða það í nefndinni en a.m.k. tel ég það til bóta sérstaklega að VSÍ er farið út úr þessu ráði.

Ef ég kem nánar að nokkrum atriðum þá vil ég nefna kærunefnd jafnréttismála. Ég fagna því að úrskurðir úrskurðarnefndar eiga að verða bindandi um leið og ég læt í ljós veruleg vonbrigði með að engin aðstoð verður við þá, sem fá það mat að lög hafi verið á þeim brotin, við að fara í mál eins og hefur þó verið möguleiki hjá kærunefnd jafnréttismála. Ef viðkomandi fær þann úrskurð að brotin hafi verið á honum eða henni jafnréttislög þá verða ekki dæmdar bætur og viðkomandi þarf sjálfur að sækja málið hjá dómstólum ef eitthvað á að koma til þannig að mér sýnist að áfram verði þetta þessi leikur: Jú, jú, jafnréttislög eru brotin, punktur. Fólk fær ekki stöðuna sína ef um það er að ræða. Það fær ekki hækkuð laun. Það fær ekki bætur aftur í tímann. Þetta hefur verið leikurinn með lögin: Þessi braut jafnréttislögin og punktur. Ég get ekki séð að þessi skipan úrskurðarnefndarinnar bæti það neitt.

Í 6. lið undir nýmælum vil ég nefna að fyrirtæki þar sem starfa 25 eða fleiri geri jafnréttisáætlanir. Það tel ég vera mjög til bóta og fagna því ákvæði en þar reynir verulega á að eftir þessu verði gengið. Slík ákvæði hafa verið í gildandi jafnréttisáætlunum á undanförnum árum og það hefur verið mjög upp og ofan hvernig það hefur gengið þannig að það þarf öflugan mannafla hjá Skrifstofu jafnréttismála til að fylgja þessu eftir og þess vegna aukið fjármagn.

Í frv. er að því er manni finnst nútímalegt ákvæði um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem er auðvitað í takt við þá umræðu sem nú er, ekki síst á Evrópuvettvangi, að bæði konur og karlar vilja fá tækifæri til þess að samræma þessi tvö svið. En því miður er mjög lítið bitastætt í þessari grein. Það er aðeins minnst á sveigjanlegan vinnutíma. Það er búið að vera í umræðunni í 20 ár. Einnig er talað um fæðingarorlof eða annað slíkt í greinargerð. Ég get því ekki séð að nokkuð bitastætt, því miður, sé í þessari grein.

Í 8. lið undir nýmæli er fjallað um kynferðislega áreitni. Það er í 18. gr. frv. og ég vil heils hugar taka undir það. Ég tel að þarna sé verulega gott skref stigið þó að um leið megi kannski velta fyrir sér af hverju ekki er tekið á fleiri hliðum kynferðisofbeldis. En ég tel að þetta sé að fordæmi annarra þjóða, þar hafa ákvæði af þessu tagi farið inn í jafnréttislögin og ég tel það mjög af hinu góða. T.d. er skilgreiningin þarna mjög svipuð því sem ég hef sett fram sjálf í mínu frv. um bann við kynferðislegri áreitni. Ég tel því að þetta sé hið besta ákvæði þarna í 18. gr.

Það sem má kannski gagnrýna í 18 gr. er tvennt. Það er annars vegar að ekki er talað um félagasamtök. Það er eingöngu talað um skóla og atvinnurekendur. Eins og reynslan sýnir þá kemur slíkt oft upp í einhvers konar trúnaðarsambandi. Mér er ekki alveg ljóst hvort þetta er nógu yfirgripsmikið ákvæði en er til í að skoða það nánar í nefndinni. Hins vegar finnst mér ekki nógu skýrar leiðbeiningar með því hvernig eigi að taka á málunum í fyrirtækjunum eða hjá atvinnurekendum. Það er talað um að ef yfirmaður sé viðriðinn slíkt mál þá geti hann ekki komið nærri því heldur annar næstráðandi, en þarna vantar leiðbeiningar um hvers konar farveg eigi að búa til í fyrirtækjunum. Það þarf kannski ekki að vera í lögunum. En þarna reynir á verulega uplýsingagjöf frá Skrifstofu jafnréttismála og töluverða vinnu að mínu mati frá þeirra hendi.

Í 20. gr. er kveðið á um menntun og skólastarf. Þar er eitt nýmæli sem ég fagna, þ.e. að rætt er um mikilvægi rannsókna í kynjafræðum og tengt við rannsóknir í Háskóla Íslands. Að öðru leyti er þessi grein óbreytt og hún er búin að standa nær óbreytt í 20 ár og enn er ástandið í þessum málum alls ekki viðunandi. Þær textabækur sem hafa verið rýndar eru yfirleitt töluvert gallaðar að þessu leyti sem og námskrár. Ég get ekki séð að þarna sé neitt nýmæli sem tryggir að betur verði tekið á þessum málum. Aftur kemur þá að það þarf mikinn vinnukraft hjá Skrifstofu jafnréttismála sem ég get ekki séð að ætlunin sé að hafa. Því miður er það þannig að margt er bara óbreytt þó að vitað sé að um 20 ára ákvæði er að ræða sem ekki hafa reynst vel.

[11:15]

Eins og ég nefndi áðan fagna ég 21. gr. um átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ríkisins. Það kom til umræðu í gær hvers vegna þarna er sett 10 ára sólarlagsákvæði á þessa markvissu leit til að fá allar stofnanir til að tilnefna bæði konu og karl. Þetta er broslegt af tveimur ástæðum. Annars vegar er bjartsýni að gera ráð fyrir að þetta verði komið í lag eftir 10 ár og hins vegar veltir maður fyrir sér hvort ekki verði löngu búið að endurskoða þessi lög eftir 10 ár. En þessi grein er verulega til bóta og ég vona svo sannarlega að hún verði til þess að við komumst upp úr því að konur eru núna eingöngu 23% af fulltrúum í nefndum og ráðum á vegum ríkisins en ekki 50% eins og markmiðið er samkvæmt gildandi jafnréttislögum og þessu frv. einnig.

Þá er talað um greiningu tölfræðiupplýsinga eftir kynjum. Þetta atriði hefur þegar lagast töluvert og þá vil ég nefna mjög góða bæklinga frá Hagstofunni en því miður eru upplýsingar ótrúlega oft ekki kyngreindar í erlendum skýrslum um tölfræði á Íslandi, um ástand jafnréttismála hér eða félagsmála. Það virðist vera þannig að jafnvel eftir að kyngreindar upplýsingar fóru að liggja fyrir í bæklingum Hagstofunnar hafa þær ekki komist inn í stjórnsýsluna þannig að upplýsingar sem fara til erlendra stofnana eins og OECD eða annarra eru oftar en ekki ókyngreindar. Þess vegna vitum við oft ekki nógu vel hvernig við komum út í samanburði við aðra.

Ég hef komið að helstu nýmælunum en í lokin vil ég spyrja hæstv. ráðherra um sektarákvæðið í sambandi við 33. gr., en þar segir:

,,Brot gegn lögum þessum geta varðað sektum sem renna í ríkissjóð.``

Þetta er nýmæli og ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvernig þetta er hugsað. Ef einhver stofnun brýtur á fólki, námsmönnum eða starfsmönnum, á þá að sekta fyrir það? Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta er hugsað.

Þetta var það helsta sem er um nýmælin en ég vil nefna fleira. Það eru fleiri atriði sem eru óbreytt og hafa ekki virkað en ég hef nefnt. Þar vil ég t.d. benda á 14. gr. Mjög illa hefur gengið að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði og það orðalag sem notað er í 14. gr. er nær óbreytt frá núgildandi grein og ég get ekki séð að neitt tryggi að staða kvenna á vinnumarkaði lagist með þessu frv.

15. gr., um launamisréttið, er eiginlega algerlega óbreytt. Ég vil nefna í framhaldi af því að það skortir í raun og veru þrátt fyrir upplýsingaskyldu 29. og 30. gr. að skylt sé að veita Skrifstofu jafnréttismála upplýsingar til þess að geta rannsakað mál. Ég fagna því að úrskurðarnefndin hefur meira frumkvæði nú, eða Skrifstofa jafnréttismála, en áður, möguleika til frumkvæðis. Hingað til hefur staðið á því að fyrirtæki gefi launaupplýsingar. Orðalagið í þessum greinum, 29. gr. og í 14. og 15. gr., er mjög svipað því sem er í gildandi lögum þannig að ég get ekki séð að Skrifstofa jafnréttismála fái nauðsynlegar heimildir til þess að rannsaka t.d. launabókhald í fyrirtækjum til þess að geta flett ofan af þessum illræmda launamun kynjanna.

Í 24., 25. og 26. gr. er talað um bann við mismunun í kjörum, bann við mismunun á ráðningu og á vinnustöðum og bann við brottrekstri. Alls staðar er endað með því að ef það komi í ljós að um mismunun sé að ræða verði atvinnurekandinn að sanna að það sé ekki vegna kynferðis. Þetta virðist því eiga að vera leikur sem á að halda áfram þar sem hver sannar fyrir sig og við það situr. Ég get ekki séð að sá sem fær það dæmt að hann hafi verið brottrekinn eða ekki ráðinn vegna kynferðis hafi nokkra stöðu. Þá kemur bara mótleikurinn. Atvinnurekandinn verður að sanna að þetta hafi ekki verið vegna kynferðis. Þetta er náttúrlega gersamlega óviðunandi. Þessi fíni lagabálkur hefur verið búinn til sem gengur út á að sýna mismunun og svo situr fólk bara uppi með það --- já hann braut jafnréttislög --- alveg eins og ráðherrarnir hafa gert á þessu kjörtímabili varðandi skipan í nefndir en ekki gerist neitt.

Tími minn er rétt að verða búinn en þarna er gott ákvæði í nokkrum greinum sem ég hef ekki nefnt, t.d. í 27. gr. Ég ítreka að málið þarf mikillar skoðunar við í félmn. Þetta frv. er til bóta en það vantar öll þau tól sem duga ef það á að hafa raunverulegt gildi.