Frestun umræðu um náttúruvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 17:19:12 (3963)

1999-02-19 17:19:12# 123. lþ. 70.96 fundur 276#B frestun umræðu um náttúruvernd# (um fundarstjórn), HG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[17:19]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Í raun hafa engin rök komið fram af forsetastóli um það hvers vegna á þetta ráð er brugðið, engin rök. Ég hefði kosið að það kæmu fram rök í málinu. Hér er mjög óvenjulega á máli haldið. Hitt er algengt að umræðu sé frestað vegna þess að einhverjir þingmenn sem af gildum ástæðum hafa ekki getað verið viðstaddir en vilja tjá sig og eiga þess síðan kost.

En ég vil vekja athygli á því, virðulegur forseti, að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem mælt hefur verið fyrir og ef áformið var að haga málinu svona í þinginu þá átti hæstv. ráðherra að spara sér það að mæla fyrir málinu. Það er auðvitað ekki hans heldur hæstv. forseta að ráða dagskrá og hverjir tala hér úr stólnum.

Ég vil bæta því við, virðulegur forseti, að það gerðist í þessu máli að viku áður en frv. var lagt fram á þingi var það kynnt af hæstv. ráðherra á blaðamannafundi en var hins vegar ekki í höndum okkar þingmanna fyrr en fyrir tveimur dögum eða svo. Þannig að þeir sem ekkert þekktu til málsins né höfðu komið að því höfðu engar aðstæður til þess að tjá sig um málið á opinberum vettvangi. Og nú á enn að draga það að menn geti sagt álit sitt á þessu máli hér á vettvangi þingsins.

Þetta finnst mér slæmt og ég trúi ekki öðru en hæstv. forseti greini okkur frá því hvað er svo brýnt hér að taka fyrir að megi ekki haga málum eins og eðlilegt má teljast.