Almannatryggingar

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 19:22:02 (3973)

1999-02-19 19:22:02# 123. lþ. 70.8 fundur 520. mál: #A almannatryggingar# (örorkumat) frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[19:22]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég vil fagna þeim atriðum sem verið er að taka á í þessu frv. til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, en þar er einkum um að ræða þá sem metnir hafa verið til 75% örorku til langframa, eins og tekið er fram í 1. gr. frv.

Mig langar samt að spyrja ráðherra hvort þetta nái ekki yfir alla þá sem metnir eru til 75% örorku, því það getur jú verið erfitt að skilgreina hvað ,,til langframa`` táknar.

Síðasti ræðumaður spurði að því m.a. hvort öryrkjar væru ekki alltaf öryrkjar. Fólk er oft metið til 75% örorku og yfir í takmarkaðan tíma, kannski í hálft ár, kannski í eitt ár eða þá að örorkan er endurskoðuð með reglulegu millibili meðan einhver batavon er, og það eru mörg dæmi um þetta. Það er ekki gefið út varanlegt, endanlegt örorkumat hjá þorra þeirra sem fá slíkt mat.

Mig langar því að vita hvað orðalagið ,,til langframa`` táknar og hvað þetta þýðir fyrir þá sem eru metnir til 75% örorku, kannski eitt ár í senn, hálft ár í senn o.s.frv.

Ég minnist þess að fjótlega eftir að ég tók til starfa sem læknir í Reykjavík var í samlagi hjá mér roskin kona sem var mjög illa lungnaveik. Hún var metin til 65% örorku vegna þess að maðurinn hennar hafði tekjur yfir viðmiðunarmörkum. Þetta var eiginlega í fyrsta skipti sem ég varð vör við þetta ranglæti og gleðst því sérstaklega yfir að sjá það leiðrétt.

Annað sem mig langar til að spyrja um er þetta matsteymi, sem mér sýnist af frv. að komi inn í b-lið 1. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Tryggingayfirlækni er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar ...`` o.s.frv.

Tryggingayfirlækni er heimilt að setja þetta skilyrði og ég skil það svo að í athugasemdunum sé það þetta matsteymi sem eigi að gera slíka úttekt og hægt sé að vísa þeim til sem verið hefur óvinnufær í tvo til þrjá mánuði. Nú er örorkumat almennt byggt á örorkuvottorðum frá lækni sjúklingsins eða þess sem mest hefur haft með hann að gera, og í þeim vottorðum sem skrifuð eru áður en örorkumat fer fram er einmitt spurt nokkuð ítarlega um hvort endurhæfing sé möguleg og hvort hún muni bæta ástand o.s.frv. Þannig að nú þegar er þetta kannað. Það kemur mér þess vegna á óvart að sérfræðingar Tryggingastofnunar telji að framboð á endurhæfingu sé ófullnægjandi og henni sé beitt of seint eða ekki fyrr en sjúklingurinn hefur verið viðurkenndur öryrki.

Mig langar því líka að spyrja: Hefur þetta verið tekið út sérstaklega? Það væri fróðlegt að heyra tölur um það. En ég fagna framkomu þessa frv. og því góða sem það mun hafa í för með sér.