Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 22:42:37 (32)

1998-10-01 22:42:37# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[22:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég hef hlustað af mikilli athygli á ræður stjórnarandstöðunnar hér í kvöld. Ég hef reynt að koma því saman í mínum kolli hvernig þeir ætla að ná saman heilsteyptri stefnu sem stenst efnahagslegar forsendur og hægt er að koma í framkvæmd. Þeir hafa sagt að margt sé að og margt sem ekki hafi verið gert og það er rétt. Auðvitað eru margir sem eiga bágt. Auðvitað eru það margir sem þurfa að hafa það betra og auðvitað eru margir sem vilja hafa það betra. Hefur það ekki alltaf verið þannig og mun það ekki alltaf verða þannig? Halda samfylkingarmenn virkilega að ef þeir taki völdin þá verði hver einasti maður hamingjusamur á Íslandi? Ætla þeir að lofa því og án þess að það kosti nokkurn skapaðan hlut og stöðva jafnvel atvinnulífið? Hæstv. sjútvrh. var sakaður um bull af einum hv. þm. vegna þess að hann kom með þá staðreynd að ef lagt yrði á 5 milljarða veiðigjald, fengi tiltekið fyrirtæki á Ísafirði 150 millj. af því. Er þetta bull? (GGuðbj: Fyrirgefðu, hvaðan komu 5 milljarðar?) Er þetta bull? (GGuðbj: Engin tala var nefnd.) Síðan segir hv. þm. að hæstv. sjútvrh. hafi gefið útgerðarmönnum 25 milljarða. Ég held að það hljóti að vera eitthvert bull.

Ég fæ þá niðurstöðu að það sem standi til sé að skattleggja sjávarútveginn og nota þá peninga til ýmissa mála. Og af hverju í ósköpunum getur þessi sambræðingur ekki sagt það hreint og beint að það sé það sem standi til? Þá væri þetta skiljanlegt og þá væri hægt að taka afstöðu til þess.

Eitt af því sem hér hefur komið fram, aðallega hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og einnig hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, er að hér sé óskaplegt ástand í umhverfismálum og mikil niðurlæging fyrir Framsfl. að hafa stjórnað þeim málum. Er það niðurlæging að hafa komið á samkomulagi um eftirlit með mengun hafsins? Er það niðurlæging að hafa náð samkomulagi um að farið verður í herferð gegn þrávirkum efnum? Er það niðurlæging að við erum langt komin með að koma á skipulagi á nýtingu hálendisins? Er það niðurlæging að langt er komið vinnu við ný náttúruverndarlög? Nei, það er ekki niðurlæging. Niðurlægingin felst í því að til stendur að nýta íslenska orku. En hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði: Það á að sjálfsögðu að nýta hana. Það á sem sagt að virkja. Ég skildi hann þannig. En það má alls ekki nota orkuna til að framleiða léttmálm því að það er hættulegt fyrir umhverfið. Heimsbyggðin þarf á léttmálmi að halda til þess að minnka mengunina og útrýma þungum málmum í bílum og annars staðar. Á þá að framleiða þennan léttmálm með kolum eða kjarnorku eða hvernig á að gera það í heiminum?

Þetta er náttúrlega slíkur tvískinnungur að vart er hægt að hlusta á þetta. Árið 1990 var losun okkar á Íslandi meira en helmingi minni en í Bandaríkjunum og 50% minni en meðaltal í OECD. Við eigum sem sagt að fallast á það að þetta eigi að vera svona áfram. Ísland er ekki iðnaðarþjóð. Hinar þjóðirnar eru iðnaðarþjóðir. Við eigum að samþykkja það að stoppa við þessi mörk og við eigum að samþykkja að fá ekki að nota íslenska orku. Þetta kalla ég niðurlægingu. Ef þetta yrði, þá yrði íslenska þjóðin niðurlægð í eitt skipti fyrir öll og hv. þingmenn sem þannig tala vilja ekki einu sinni berjast fyrir rétti okkar á erlendum vettvangi. Þeir vilja ekki reyna að fá skilning fyrir okkar aðstæðum. Svo koma þeir í ræðustól og segja að flokkurinn sem beri ábyrgð á þessum málum, sem er að berjast fyrir rétti þjóðarinnar, hafi verið niðurlægður. Það er sorglegt að þurfa að búa við þessar aðstæður þegar við erum að berjast fyrir rétti íslensku þjóðarinnar. Ég vona að það fólk sem svona talar komist ekki til valda á Íslandi og niðurlægi þjóðina með þeim hætti.