Upplýsingar um lyfjanotkun í gagnagrunn

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:13:40 (370)

1998-10-14 15:13:40# 123. lþ. 10.11 fundur 53. mál: #A upplýsingar um lyfjanotkun í gagnagrunn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra um upplýsingar um lyfjanotkun í gagnagrunn er svohljóðandi:

,,Hefur verið leitað álits Tryggingastofnunar ríkisins, Lyfjaeftirlits ríkisins, Lyfjanefndar ríkisins, Apótekarafélags Íslands og Lyfjafræðingafélags Íslands á hugmyndum um að upplýsingar um lyfjanotkun einstaklinga og þjóðarinnar í heild verði settar í miðlægan gagnagrunn?

Liggi álit ofangreindra aðila fyrir er óskað eftir að skýrt sé frá meginniðurstöðum þeirra.``

[15:15]

Bakgrunnur þessarar fsp., virðulegur forseti, er sá að gert er ráð fyrir skráningu á upplýsingum úr sjúkraskrám um meðferð á sjúklingum m.a. og ráðstöfunum sem gerðar eru til þess að bæta heilsu þeirra, m.a. með lyfjum. Samkvæmt frv. hæstv. ráðherra á að taka upplýsingar úr sjúkraskrám og setja í miðlægan gagnagrunn. Því er eðlilegt að fara yfir sviðið með tilliti til upplýsinga um lyf og lyfjanotkun almennt, út frá margþættu sjónarmiði, einnig viðskiptalegu.

Nú er vitað að á bak við fyrirtækið að baki þessu stjórnarfrumvarpi, Íslenska erfðagreiningu, er lyfjarisinn Hoffmann-La Roche. Það væri ekki óþægilegt fyrir þann hinn sama að hafa upplýsingar um lyfjanotkun Íslendinga, um það hve mikið þeir kaupi, af hverju, hvaða lyf eru notuð o.s.frv. Það er þó aðeins einn þáttur málsins sem tengist lyfjarisanum sem ætlar að vera svo örlátur að gefa Íslendingum þau lyf sem hann framleiðir og kunna að koma upp úr töfraboxi því sem þarna um ræðir.

Virðulegur forseti. Tryggingastofnun ríkisins er að rafvæða gagnagrun sinn og fyrir liggur skýrsla Ríkisendurskoðunar frá júlí 1997 um lyfjaeftirlitskerfi stofnunarinnar og pappírslaus viðskipti við lyfjaverslanir og allt er þetta tölvufært. Ég veit ekki hvort fyrirhugað er að upplýsingar úr þessum grunni fari inn í gagnagrunninn. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi miðað við að upplýsingum um meðferð sjúklinganna er ætlað þarna inn og þar er auðvitað lyfjagjöfin grundvallarþáttur.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi farið rækilega ofan í þessi mál. Mér heyrist hæstv. ráðherra nokkuð viss í sinni sök ef marka mátti yfirlýsingar hennar áðan. Væntanlega hefur þetta verið tekið til ítarlegrar meðferðar. Því væri fróðlegt, virðulegi forseti, að heyra viðbrögð frá hæstv. ráðherra um þetta efni.