Persónuvernd og gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:58:07 (391)

1998-10-14 15:58:07# 123. lþ. 10.14 fundur 62. mál: #A persónuvernd og gagnagrunnur á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við undirbúning þessa máls höfum við leitað umsagna mjög margra, bæði innlendra sérfræðinga og erlendra. Ég tel að málið sé mjög vel unnið. En hv. þm. sagði réttilega í upphafi máls síns núna síðast að við værum frumkvöðlar í þessu máli. Við erum í fararbroddi í þessu máli og þar af leiðandi erum við að fara nýjar slóðir sem aðrar þjóðir hafa ekki farið. Það getur því vel verið að allir þeir sérfræðingar sem hér hefur verið getið hafi ekki svör við mörgum þeim spurningum sem við svo gjarnan vildum að til væru svör við, vegna þess að við erum að fara nýjar leiðir.

Þegar við horfum á þetta mál þá er spurningin: Hvort er meira virði að fara þessa leið sem við ætlum að fara og nýta það sem út úr því kemur eða að hrökkva burt og þora ekki vegna þess að einhverjar alþjóðastofnanir úti í heimi gætu kannski haft einhverjar athugasemdir við þetta? En þetta brýtur ekki í bága við alþjóðasamþykktir og það er mergur málsins.