Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:42:26 (854)

1998-11-04 14:42:26# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum var ég að fylla út upplýsingamiða um sjálfan mig er ég kom til Malasíu, það var miði fyrir útlendingaeftirlitið. Til hliðar á þessum miða var rauðletrað stórum stöfum að það væri dauðarefsing við að flytja eiturlyf til Malasíu. Mér var brugðið og ég hugsaði: Guði sé lof að við búum á Íslandi, eyju fjarri svo mikilli umferð sem hér er og við getum ábyggilega varist þessum vanda lengi vel.

En hvað hefur gerst? Þegar fréttir af þessum alvarlega vágesti og vandamáli hafa borist erlendis frá höfum við Íslendingar talið að vandamálið væri ekki erfitt, það væri ekki erfitt fyrir okkur að fást við þennan vanda á eyju í miðju Atlantshafi og fjarri alfaraleið. En reyndin er allt önnur. Það var rétt eins og hér hafa fáir einir komið inn á, þingmenn hafa komið með dæmisögur úr hinu daglega lífi og rætt um þann vanda sem blasir við mörgum fjölskyldum og þá fjölskylduvá sem hér hefur komið fram. Þegar einn fjölskyldumeðlimur lendir í þessari ógæfu, þá er öll fjölskyldan undir, það er rétt.

Sölumenn dauðans koma víða við og það er athyglisvert að hafa hlustað á foreldri sem hafa sagt: Fyrstu spor míns barns í þessa ógæfu voru á skólalóðinni þar sem sölumenn dauðans höfðu læðst inn í frímínútum og gefið krökkunum eða boðið þeim fíkniefni við vægu verði. Þar var fyrsta notkunin. Ég tek undir að auðvitað eigum við að hlúa að þeim sem hafa lent í þessum vanda. En hugsum við nógu vel um það að girða fyrir þetta áður en það kemur til landsins?

Þegar náttúruhamfarir hafa dunið yfir Íslendinga þá hafa þeir hlaupið til og stjórnvöld hafa jafnvel sett án nokkurra athugasemda skattbyrði á Íslendinga til að mæta þeim vágesti og þeirri alvarlegu stöðu sem upp hefur komið og menn hafa talið sjálfsagt að nú ætti að grípa til samhjálpar. En ég segi: Hvað má verða til þess að stöðva þennan innflutning? Hvers vegna getur eyþjóð í Norður-Atlantshafi, fjarri allri umferð ef svo mætti segja, ekki stöðvað þennan innflutning? Hverjir eru það sem fjármagna þetta? Hverjir eru sendiboðar þeirra manna sem kaupa þessi eiturlyf? Hverjir eru sendiboðarnir á skólalóðunum? Hefur lögreglan ekki nógu mikið fjármagn? Hefur hún ekki nógu mikinn mannafla? Fær hún ekki nógu mikinn tíma? Dæmi voru um að um miðjan mánuð hafi lögreglan eytt öllu fjármagni sínu og gat þá ekki unnið eftirvinnu eða næturvinnu til þess að uppræta þetta og þá fóru sölumenn dauðans af stað. Þetta er staðreynd. Þess vegna segi ég: Við eigum að mæta þessum vanda eins og hann blasir við og við eigum að takast á við sölumenn dauðans og þá sem fjármagna þessi kaup.