Afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:29:46 (874)

1998-11-04 15:29:46# 123. lþ. 20.3 fundur 27. mál: #A afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hygg að öryrkjar séu eini þjóðfélagshópurinn sem með lögum er refsað fyrir það að ganga í hjónaband. Þess vegna er mikilvægt að afnema þessa skerðingu að fullu. Ég tók eftir að hæstv. ráðherra sagði að þetta yrði afnumið í skrefum og fyrsta skrefið tekið á þessum vetri.

[15:30]

Ég spyr: Verður ákvæði í frv. um hvenær skerðingin verður að fullu afnumin? Eða verða öryrkjar áfram í óvissu eftir frv. ráðherrans þar sem eitthvert skref er tekið, eða mun ráðherrann setja það markmið að þessu verði lokið og skerðingin afnumin að fullu t.d. á næsta ári? Ég spyr líka hvort þetta ákvæði muni ná til allra lífeyrisþega, líka aldraðra. Eða er bara verið að tala um öryrkja í þessu sambandi? Vegna þess að sú skerðing gildir líka að því er varðar aldraða og við getum ekki staðið frammi fyrir lagasetningu sem mismunar öldruðum og öryrkjum.

Ég spyr um þetta og legg áherslu á að ráðherra svari. Ég vil minna á í þessu sambandi þegar við erum að tala um kjör öryrkja, að á sl. fimm árum hafa lágmarkslaun hækkað um 52%, launavísitala um 30%, en örorkulífeyrir einungis um 17,4%. Þess vegna verðum við að stíga það skref núna, herra forseti, og afnema að fullu þessa skerðingu til að bæta kjör öryrkja. Þetta er eitt af stóru hagsmunamálunum sem öryrkjar hafa barist fyrir og ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að skerðingin verði afnumin að fullu.