Afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:31:23 (875)

1998-11-04 15:31:23# 123. lþ. 20.3 fundur 27. mál: #A afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég verð því miður að lýsa yfir vonbrigðum með svör ráðherrans við þessari fsp. Auðvitað ber að afnema þetta óréttlæti strax. Og ég minni á að þetta á ekki aðeins við um það þegar öryrkjar og aldraðir ganga í hjónaband eða eru í hjónabandi heldur á þetta líka við um sambúð þó svo að fólk sé ekki með sameiginlegan fjárhag. Þetta er miklu meira óréttlæti en að þetta gildi aðeins um hjónaband.

Hæstv. ráðherra talar um áfanga. Auðvitað á ekki að gera þetta í áföngum. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvernig þessir áfangar ráðherrans verða. Hvað felst í þeirri tillögu?

Ég minni líka á það, vegna þess að hér komu aldraðir til umræðu, að öryrkjar verða líka aldraðir. Eiga þeir þá að búa við skerðingarnar eftir að þeir eru orðnir gamlir, eftir að þeir eru orðnir 67 ára? Á þá að fara að skerða vegna tekna maka? Auðvitað verður þetta að ganga yfir alla lífeyrisþega.

Ég minni á að í þinginu er til umræðu frv. sem afnemur þessa tengingu. Og ef hæstv. ráðherra hefði áhuga á að afnema þetta þá getur hann lýst yfir stuðningi við það frv. sem hér er til umræðu um breytingu á almannatryggingalögunum, þar sem þessi tenging við tekjur maka eða sambýlings er afnumin að fullu með lögum.