Framkvæmd fjármagnstekjuskatts

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 11:06:20 (1324)

1998-11-19 11:06:20# 123. lþ. 27.91 fundur 110#B framkvæmd fjármagnstekjuskatts# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[11:06]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Þessi ræða dæmir sig nú sjálf. Það er upplýst að aðalatriðið í þessu máli er samanlögð skattálagning hjá einkahlutafélagi og eigandanum. Þessu sleppir þingmaðurinn. Þetta skipti líka máli fyrir breytinguna sem var gerð í vor vegna þess að hlutafélög þurftu að skila hagnaði áður en þau gátu borgað út arð. Og svo fór það eftir því hvernig stóð á samspili arðs og hagnaðar hvort um var að ræða einfalda skattlagningu, enga skattlagningu eða jafnvel tvöfalda, eins og tíðkaðist í gamla kerfinu sem við breyttum í vor.

Svo kemur hv. þm. með þær fullyrðingar að það hafi orðið verulegt tekjutap. Með sama hætti má segja að ríkið tapi stórfelldum fjármunum vegna þess að tekjuskatturinn er ekki 50% á almenning í stað þess að vera 39%. (JóhS: Hvers lags rugl er þetta eiginlega?) Þannig eru nú fullyrðingarnar hjá hv. þm.

Það er ekki hægt að tala um að skattkerfið eins og það var eða skattprósentan eins og hún var hefði skilað svo og svo miklu á skattstofninn eins og hann er núna. Er þetta ekki einfalt mál? Það liggur alveg fyrir að söluhagnaður t.d. hefur margfaldast vegna þess að fólk er farið að selja, sem það ekki gerði áður. Vegna hvers? Vegna þess að skattkerfinu var breytt.

Sama er að segja um ýmsa aðra þætti og heildarniðurstaðan í þessu er vitanlega sú að ríkið fær í fjármagnstekjuskatt umtalsvert meira fjármagn, meiri peninga en það fékk í gamla kerfinu. Vegna þess að við erum leggja á breyttan skattstofn, hærri skattstofn og við fáum út úr þessu 800 millj. kr. umfram það sem hefði ella verið á árinu 1997 miðað við árið 1996. Þetta er aðalatriðið og ef maður tekur síðan framtaldar fjármagnstekjur á árinu 1996 og notar gamla kerfið og nýja kerfið á þann skattstofn þá sjáum við að þetta nýja kerfi hefði á þann stofn skilað okkur umtalsvert meiru en gamla kerfið gerði. Hér ber því allt að sama brunni. Það er verið að þyrla upp moldviðri af engu tilefni. Ég ráðlegg hv. þm. að kynna sér ummæli formanns Félags löggiltra endurskoðenda um þetta mál sl. laugardag.

En hitt er svo annað mál að auðvitað þurfum við að hafa vakandi auga með ágöllum á þessu kerfi, eins og í öðrum þáttum skattkerfisins. Og það er sjálfsagt mál að yfirfara öll slík atriði og kanna hvað má betur fara. En menn verða að fara rétt með grundvallaratriði í málinu. Það er auðvitað lágmarkskrafa. (JóhS: Það á ráðherrann að gera sjálfur.)