Málefni Stofnfisks

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:18:33 (1465)

1998-12-02 13:18:33# 123. lþ. 30.91 fundur 127#B málefni Stofnfisks# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:18]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hvað er á seyði í íslensku þjóðfélagi? Framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin, raðar gæðingum í hvert embættið á fætur öðru, rakar að flokksgæðingunum hverri sporslunni á fætur annarri í ýmsum myndum. Fyrirspurnum þingmanna til framkvæmdarvaldsins er ýmist hálfsvarað, illa svarað eða ósvarað.

Ég krefst þess að þingið meti hvort svör sem berast til þingsins frá framkvæmdarvaldinu séu í samræmi við fyrirspurnir. Vísvitandi eru aldraðir og fatlaðir sviptir því sem þeim ber til framfærslu sem nemur hundruðum milljóna. Ég tala ekki um ef miðað er við lægstu laun, þá vantar 1.842 millj. á árunum 1995--1998.

Hvers vegna er beiðnum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar ekki svarað?

Ætlar hæstv. landbrh. að láta fara fram rannsókn á því hvort um hafi verið að ræða skattalagabrot og misferli eins og ráða má af frétt DV frá 22. október sl. varðandi þetta mál?

Á að selja fyrirtækið með óbreyttri stjórn, þ.e. Stofnfisk hf., eða á að víkja stjórninni frá og selja síðan?

Telur hæstv. landbrh. að einkavæðingarnefnd geti afgreitt málið eins og það er nú í ljósi umræðunnar?

Hver er fjárhagslegur ávinningur ríkisins af sölunni?