Málefni Stofnfisks

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:22:03 (1467)

1998-12-02 13:22:03# 123. lþ. 30.91 fundur 127#B málefni Stofnfisks# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:22]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Nýlega kom fram í fyrirspurnatíma á Alþingi að landbrn. hefði gert samning við Stofnfisk um að kaupa laxahrogn af því fyrirtæki fyrir 250 millj. kr. á næstu átta árum og að þessi samningur muni fylgja fyrirtækinu þegar það verður selt. Ég tel að það verði að huga að því við fyrirhugaða sölu á Stofnfiski hvernig þetta mál horfir við öðrum fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi og hvað er fram undan þegar átta ára samningnum lýkur og Stofnfiskur er ekki lengur skuldbundinn til viðskipta við innlendu fyrirtækin. Stofnfiskur sér um að kynbæta hrogn fyrir fiskeldið á Íslandi og fyrirtækið var raunar stofnað til þess auk þess sem fiskeldisdeild Veiðimálastofnunar var lögð niður og flutt inn í Stofnfisk.

Með samningnum hefur ríkið lagt mjög mikið fé til fyrirtækisins sem verður að nýtast til hagsbóta fyrir allt fiskeldi á Íslandi. Ég spyr því hæstv. landbrh. hvort tryggt verði við væntanlega sölu fyrirtækisins að það lendi ekki í höndum erlendra samkeppnisaðila með þeim afleiðingum að það geti ráðið yfir erfðaefninu. Þetta þarf allt að skoða í samhengi og það er mjög mikilvægt að þetta fyrirtæki sem landbrn. hefur gert svo vel við vinni í góðu samstarfi við önnur fiskeldisfyrirtæki, ekki síst ef það kemur til útflutnings á laxaseiðum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. landbrh. hvort hugað hafi verið að því að gera ráðstafanir til að tryggja að önnur fiskeldisfyrirtæki geti keypt sig inn í Stofnfisk á viðunandi verði.

Nú hefur komið fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að honum hefur verið neitað um upplýsingar um þetta mál og ég tel það óásættanlegt fyrir Alþingi. Það er óásættanlegt að ekki skuli fást fram allar staðreyndir málsins. Ég tel ekki eðlilegt að selja fyrirtækið meðan svo er. Alþingismenn hljóta að fá að skoða öll gögn varðandi þetta mál áður en til sölu kemur. Það er eðlilegt að spurt sé: Af hverju þessa leynd? Er eitthvað í málinu sem þolir ekki dagsins ljós? Ég er ekki að gera því skóna að svo sé en ég hvet hæstv. landbrh. til að aflétta allri leynd af málinu og reka það fyrir opnum tjöldum eins og gert hefur verið varðandi einkavæðingu annarra ríkisfyrirtækja. Það er öllum fyrir bestu.