Lækkun álverðs og orkuverðs

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:47:08 (1504)

1998-12-02 14:47:08# 123. lþ. 30.12 fundur 117. mál: #A lækkun álverðs og orkuverðs# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 117 beinir hv. þm. Svavar Gestsson til mín eftirfarandi fyrirspurn um lækkun álverðs og lækkun orkuverðs.

Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: Hvert er verðið á hverju tonni af áli á síðasta fjórðungi þessa árs? Hvað hefur verðið lækkað mikið miðað við afkomuáætlanir Landsvirkjunar í upphafi ársins 1998?

Álverð á þriðja ársfjórðungi ársins 1998 var 1.344 dollarar á tonnið og er þá miðað við þriggja mánaða LME-verð. Verð á fjórða ársfjórðungi liggur ekki fyrir en gera má ráð fyrir að verðið verði mjög svipað og á þriðja ársfjórðungi eða um 1.350 dollarar á tonn. Á þessum forsendum verði meðalverð ársins 1998 1.374 dollarar á tonnið.

Í áætlunum Landsvirkjunar var miðað við að LME-álverðið verði 1.500 dollarar á tonn á árinu 1998 að meðaltali.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hver eru áhrifin af lækkun álverðs á orkuverð sem stóriðjufyrirtækin greiða til Landsvirkjunar,

a. alls,

b. á hverja kílóvattstund að meðaltali á þriggja mánaða tímabili?

Með leyfi forseta og vonandi með leyfi hv. þm. líka langar mig til af því að þetta er viðamikil fyrirspurn að fá að svara annarri og þriðju spurningu saman. Í þriðju spurningu spyr hv. þm.: Hver yrði tekjulækkunin af sölu Landsvirkjunar á raforku til stóriðju á næsta ári ef verðið héldist það sama út allt árið 1999 í samanburði við þær tekjur sem Landsvirkjun hafði af sölu á orku til stóriðju á árinu 1997?

Miðað við álverð eins og það var á árinu 1997 eða 1.619 dollarar á tonnið og álverð um 1.350 dollarar á tonnið verður munurinn á tekjum á árinu 1999 í Bandaríkjadollurum 6,6 millj. eða íslenskum krónum 450 millj. kr. Þannig reiknað nemur lækkun á rafmagnsverði á kílóvattstund vegna rafmagnssölu til álvera að meðaltali um 1,9 millum á hverja kílóvattstund.

Í fjórða lagi spyr hv. þm.: Telur ráðherra tilefni til að endurskoða verðlagsviðmiðanir stóriðjufyrirtækja?

Ekki er grundvöllur fyrir endurskoðun á verðlagsviðmiðunum stóriðjufyrirtækja vegna gildandi rafmagnssamninga sem allir eru tiltölulega nýgerðir og gilda í 20 ár frá undirritun. Ákvæðum sem þessum verður vart breytt nema til komi ófyrirsjáanlegar og langvarandi breytingar á verði öðrum hvorum samningsaðilanum til verulegs tjóns umfram það sem við má búast vegna eðlilegra sveiflna í efnahags- og viðskiptamálum heimsins. Hins vegar hefur Landsvirkjun að undanförnu unnið að undirbúningi samninga við fjármálastofnanir sem hefðu það í för með sér að minnka áhættu fyrirtækisins vegna sveiflna í álverði og eru það samningar sem eru vel þekktir, að menn geta keypt sér tryggingu fyrir miklum breytingum á því. Það vekur svo aftur á móti upp spurningar um hvort svo stór hluti af raforkusölu eins fyrirtækis, eins og Landsvirkjunar í þessu dæmi, eigi að vera bundinn við álverð að svo stórum hluta sem raun ber vitni. En eftir því sem betri tækifæri gefast til þess að tryggja sig fyrir slíkum sveiflum er öryggið meira.

Í fimmta lagi spyr hv. þm.: Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða fyrri áætlanir um lækkun raforkuverðs til almennings?

Samkvæmt ákvörðun eigenda Landsvirkjunar var haustið 1996 gert ráð fyrir að heildsöluverð fyrirtækisins til almenningsveitna yrði óbreytt að raungildi til ársins 2000 og síðan lækkaði það um 2--3% árlega á árunum 2001--2010 eða um 20--30% að raunvirði á þessu tíu ára tímabili. Afkoma áranna 1996 og 1997 varð verulega hagstæðari en áætlað var. Horfur fyrir árin 1998 og 1999 eru aftur á móti nokkuð lakari. Samkvæmt upphaflegri áætlun eigendanna var gert ráð fyrir að hagnaður yrði að meðaltali 400 millj. kr. á ári þessi ár. Raunveruleg niðurstaða ef tekið er tillit til mun lakari afkomu áranna 1998 og 1999 gæti orðið um 1.100 millj. kr. Það gefur því ekki tilefni til að endurskoða fyrri áætlanir um raunlækkun raforkuverðs nema ef vera kynni í þeim tilgangi að flýta lækkunarferlinu sem fyrirhugað var á sínum tíma.