Framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynja

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:25:26 (1516)

1998-12-02 15:25:26# 123. lþ. 30.15 fundur 263. mál: #A framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynja# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna er metnaðarfull og í takt við þann vilja ríkisstjórnarinnar að taka myndarlega á í jafnréttismálum. Stýrihópur sem fylgja mun eftir verkefnum í framkvæmdaáætluninni hefur verið skipaður og formaður hans er Sigríður Lillý Baldursdóttir skrifstofustjóri í félmrn. Með henni í stýrihópnum eru Arnbjörg Sveinsdóttir alþm. og Magnús Stefánsson alþm.

Verkefninu sem um er spurt, þ.e. að í öllum tölfræðilegum samantektum og skýrslum verði upplýsingar greindar eftir kyni, er lýst svo í framkvæmdaáætluninni:

,,Ráðuneytum og ríkisstofnunum verður sent umburðarbréf þar sem kynnt verður sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að í öllum tölfræðilegum samantektum og skýrslum verði upplýsingar greindar eftir kyni. Hagstofa Íslands mun vinna með stofnunum ríkisins að framkvæmd þessa verkefnis. Skrifstofa jafnréttismála mun kanna framgang þess þegar liðin eru tvö ár frá gildistöku áætlunarinnar.``

Í frv. til nýrra jafnréttislaga sem unnið er að og ég vona að verði lagt fyrir Alþingi alveg á næstu dögum er tekið sérstaklega á söfnun upplýsinga, úrvinnslu og birtingu hvað varðar aðgreiningu eftir kyni. Söfnun og meðferð upplýsinga um stöðu kynjanna í samfélaginu er hornsteinn markviss jafnréttisstarfs. Þegar frv. verður að lögum hefur því verið skapaður traustari grunnur fyrir frekara starfi að verkefninu. Mér þykir rétt að bíða afgreiðslu þess áður en farið verður í þær aðgerðir sem fjallað er um í umræddu verkefni sem er alveg á næsta leiti.

Spurt var um könnun á því hvort opinber stefnumörkun taki mið af jafnrétti kynjanna. Verkefninu er þannig lýst í framkvæmdaáætluninni:

,,Ríkisstjórnin mun skipa nefnd sem verður falið að kanna hvort og með hvaða hætti opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Nefndin mun í upphafi verks leggja fyrir ríkisstjórn starfsramma og gera þar tillögur að þeim málaflokkum sem sérstaklega verða skoðaðir.``

Ég hef beðið stýrihópinn að móta tillögur um hvernig staðið verði að því að höndla þetta verkefni. Ég vænti þess að nefndin sem fær þetta skilgreinda verkefni geti tekið til starfa innan tíðar.

Þriðja spurningin var um hvort stuðlað verði sérstaklega að jafnrétti hjá ríkisstofnunum. Verkefnið heitir í framkvæmdaáætluninni Jafnrétti hjá ríkisstofnunum og er lýst sem hér segir:

,,Í árangursstjórnunarsamningum milli ráðuneyta og stofnana verði sérstaklega vikið að 6. gr. laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna sem m.a. tekur til jafnréttismála. Þá verði í erindisbréfum forstöðumanna stofnana sérstaklega minnt á að stuðlað skuli að jafnrétti kynjanna í starfsemi stofnunarinnar.``

Ráðuneytin vinna nú að árangursstjórnunarsamningum við undirstofnanir sínar og ráðgert er að þeirri vinnu verði lokið fyrir áramót. Stýrihópur vegna framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum mun senda öllum ráðuneytum bréf þar sem sérstaklega verður minnt á þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar um ákvæði í árangursstjórnunarsamningum og í erindisbréfum til forstöðumanna.