Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 13:06:46 (2186)

1998-12-12 13:06:46# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[13:06]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hyllist til þess að fylgja þeirri stefnu að reyna að gera endurbótaáætlun fyrir þau sjúkrahúsin á þeim stað þar sem þau eru. Maður horfir til þess að þarna eru gríðarlegar byggingar sem mundi þá þurfa að finna einhver önnur verkefni. Mér er alveg fulljóst að það þarf að kosta verulega til viðhalds og endurskipulagninga í sjúkrahúsunum á næstu árum miðað við þær tæknibreytingar sem hafa orðið. En ég hef enn þá trú á að hægt sé að gera það. Við lögðum reyndar fram töluverða peninga til endurbóta á Sjúkrahúsi Reykjavíkur á yfirstandandi ári þó að það nægi náttúrlega hvergi nærri.

Ég vil fylgja þeirri stefnu að reyna að endurbæta sjúkrahúsin og reyna að færa þau til nútímahorfs þar sem þau eru en það á þá eftir að sýna mér fram á að þetta sé allt saman með þeim hætti að það þurfi að fleygja því. Ég er ekki búinn að kaupa þau rök enn þá. Það getur vel verið að sýnt verði fram á það í framtíðinni en eins og er stendur ekkert annað til en vinna að endurbótum á sjúkrahúsunum sem fyrir eru.