Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 15:44:46 (2205)

1998-12-12 15:44:46# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér neitt í orðaskipti hv. þm. um Reykjanesbraut. Mér finnst hins vegar einkar athyglisvert að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skuli gera þessi mál að umræðuefni á þennan hátt, þ.e. að tiltaka Reykjanesbraut sérstaklega. Mér er það í minni að þegar umræður voru um framtíðarskipan flugmála lagðist hann eindregið gegn því að til þess kæmi að flytja Reykjavíkurflugvöll suður á Suðurnes og fann því allt til foráttu. Mér finnst því satt að segja býsna lítið samhengi í þessum þankagangi hans þegar hann lætur að því liggja í aðra röndina að það þurfi að bæta stórkostlega samgöngur á þessum legg en vill hins vegar ekki flytja þangað þjónustu, það er svona bara til umhugsunar. En að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í þau mál.

[15:45]

Ég vil vekja á því athygli, herra forseti, að við ræðum hér fjárlagafrv. fyrir árið 1999 við allsérstakar aðstæður og rétt að halda því ákveðið til haga að við erum að ræða síðustu fjárlög fyrir kosningar og það fer ekki fram hjá nokkrum manni að þessi fjárlög og meðferð fjárln. á fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. ber þess mjög klár merki. Um það þarf ekkert að deila. Hér er augljóslega tínt upp úr konfektkassanum og molar réttir hingað og þangað og reynt að gauka einhverju smáræði að sem flestum.

Það er auðvitað umhugsunarefni því að menn höfðu rætt það þvert á alla flokkapólitík, hvort það ætti ekki að vera liðin tíð að nýta fjárlög íslenska ríkisins á þenna hátt. Einhver sem man lengra aftur í tímann en ég og þekkir kannski betur söguna en ég, sagði við mig að menn væru sennilega farnir u.þ.b. tólf ár aftur í tímann í þessu sambandi og rifjaði upp kosningafjárlög ársins 1986 í þessu samhengi þar sem menn spiluðu öllu út, lausu og föstu, á kosningaári eða í aðdraganda kosningaárs. Það er mikið umhugsunarefni í þessu sambandi, virðulegi forseti.

Nú er ég ekki að halda því fram að þeir fjölmörgu aðilar sem hér fá, margir hverjir, nokkrar bætur á erfiðri stöðu og einhver fjárframlög sem þeir sannarlega þurfa á að halda, eigi ekki að fá þau. Hitt er auðvitað dagljóst --- nú vildi ég gjarnan að hv. 2. þm. Austurl., formaður fjárln., legði við eyru --- og umhugsunarefni að hv. þm. og forustumaður stjórnarliða í þinginu í þessum efnum hefur haft 100 milljarða kr. meira umleikis á yfirstandandi kjörtímabili en því síðasta. Í því samhengi er rétt að staldra aðeins við þann veruleika sem við okkur blasir, þ.e. að við erum núna þessa dagana að gera upp yfirstandandi ár og það verður gert upp með milljarða kr. halla. Það er alveg sama hvers konar viðmið menn hafa í því sambandi. Ég ætla ekki að fara yfir þau mál öll, þ.e. á hvers konar grunni þetta allt er lagt. Ég held að það sé bara einfaldleg þannig að á yfirstandandi ári, í þessu mikla góðæri, í þessum gífurlega tekjuauka sem ríkissjóður hefur fengið, hefur stjórnarliðum, fjmrh. og hans liðsmönnum, ekki tekist að halda þannig í horfi að ríkissjóður, þetta heimili sem við öll eigum, skili afgangi. Þvert á móti skilar það umtalsverðum halla á komandi kynslóðir. Þetta er grafalvarlegt mál í ljósi þeirra fjármuna sem ríkissjóður hefur haft úr að spila á þessu ári og raunar umliðnum árum sömuleiðis. Það er mjög fróðlegt að bera þetta saman við það sem gerðist á síðasta kjörtímabili. Þá voru mjög erfið ár, það reyndi á þolrifin og menn tókust hart á um ýmsa hluti á hinu háa Alþingi og þáverandi ríkisstjórn þurfti að ráðast í mjög sársaukafullar aðgerðir, umdeildar, og stundum hefur hún vafalaust eins og gengur ekki farið réttar leiðir og höggvið þar sem hlífa skyldi. En að öllu jöfnu var þó reynt. Það var reynt að breyta þankagangi og hugsunargangi í þá veru að þetta gengi ekki svona lengur. Sá þankagangur gengi ekki að ríkissjóðður gæti ávísað skuldbindingum á komandi kynslóðir.

Mér er næst að halda að þau þrengingarár og þau erfiðleikaár hafi þó kennt mönnum þá lexíu á hinu háa Alþingi og ekkert síður hjá þeim fjölmörgu aðilum sem hafa fjármuni ríkisins með höndum, að það væri ekkert sjálfgefið að peningar flæddu úr ríkissjóði til allra þeirra hluta sem menn teldu þörf á. Í því ljósi er það mikið umhugsunarefni, og ég vil varpa því til hv. þm. Jóns Kristjánssonar, hvort hann sé ekki eilítið hugsi sjálfur yfir því að á tímum góðæris sé hann að leggja upp með brtt. við 2. umr. upp á 1.700 millj. kr. sem í raun geri það að verkum að samkvæmt orðanna hljóðan og samkvæmt þeim tölum sem á borði liggja þá sé ríkissjóður nokkurn veginn á núlli.

Þegar nýr og vaskur fjmrh. kom til starfa hafði hann á orði að hann hefði það að markmiði að skila ríkissjóði með dágóðum afgangi --- ég held ég muni það rétt, og taldi það greinilega samkvæmt orðanna hljóðanna létt verk og löðurmannlegt. En svo hafa mál þróast að menn þykjast góðir ef hægt verður að stemma þetta af nokkurn veginn á sléttu. Í ljósi reynslunnar er hægt að gefa sér að þetta þýði í raun umtalsverðan halla og því spái ég með vísan til reynslu yfirstandandi árs.

Þetta er grafalvarlegt mál og ég held að þetta sé ekki mál sem við þurfum að ræða hér í hefðbundnum stíl stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur spyrja okkur hvort mönnum finnst hér rétt að verki staðið. Ég hef áhyggjur af því og ég þykist nú vita að sumir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í málefnum ríkissjóðs hafi sömu áhyggjur og ég, deili áhyggjum með mér. Mig langaði kannski að velta þessu upp við hv. talsmann meiri hluta fjárln.

Annað er auðvitað áhyggjuefni og það er að á þessum tímum góðæris, sem ég held að við getum öll verið sammála um að ríki í okkar efnahagskerfi, meiri peningar eru í umferð og þjóðin er ríkari að meðaltali, eru heimilin að safna skuldum og það engum smápeningum. Við erum að tala um 43 milljarða kr. á einu ári. Í því sambandi verða býsna léttvægir einhverjir hundraðþúsundkallar í hugsanlegum tekjuafgangi ríkissjóðs, þ.e. þegar þjóðarbúið í heild er að safna upp skuldum, heimilin í landinu, upp á fjóra tugi milljarða króna á einu ári. Þetta er stórkostlega alvarlegt mál sem menn geta ekki horft fram hjá.

Við hæstv. félmrh. áttum orðastað um þennan kalda og nöturlega veruleika ekki fyrir margt löngu og vorum ekki alveg sammála um það hver væri ástæða þessa, þ.e. hvort t.d. þjóðin væri almennt að lifa um efni fram eins og hann vildi vera láta og að fólk leyfði sér einfaldlega of mikið. Ég hélt því hins vegar fram að í þessu samfélagi okkar væru kannski allt of fjölmennir og stórir hópar fólks sem gætu einfaldlega ekki látið enda ná saman fyrir brýnustu nauðsynjum og væru hreinlega á yfirdrætti, væru hreinlega á rekstrarlánum, væru að velta vandamálaboltanum á undan sér og það endar auðvitað með hreinum ósköpum. Það sjáum við á þeim nauðungaruppboðum sem fram fara og við sjáum í auglýsingum dagblaðanna og heyrum af með ýmsu móti.

Þetta eru kannski þessar andstæður sem við okkur blasa í okkar efnahagskerfi. Sumpart skilur maður þá betur þann gífurlega viðskiptahalla sem er í efnahagskerfi okkar og er líka sem klingjandi viðvörunarbjalla hvað framtíðina varðar. Mér finnst satt að segja efnahagssérfræðingar ríkisstjórnarinnar og leiðtogar hennar á hinu háa Alþingi í peningamálum þjóðarinnar taka það kannski ekki nógu alvarlega, þ.e. þau viðvörunarmerki sem í því felast.

Vissulega veit ég það og samfagna í þeim efnum að verðbólgunni er enn þá haldið í skefjum. En undanfararnir eru algerlega ljósir. Við þekkjum það frá gamalli tíð hvað kemur á undan óðaverðbólgunni. Það eru einmitt hlutir af þeim toga sem ég nefndi áðan, stigvaxandi og langvarandi viðskiptahalli, síaukinn vöxtur í skuldum heimilanna og síðan meðfylgjandi launaskrið sem maður verður líka var við. Þetta er ekkert annað en einkennandi fyrir það sem á eftir fer, verðbólgu, og guð forði okkur frá þeirri skelfingu sem við munum allt of vel. Þetta vildi ég segja með mjög almennum orðum í upphafi minnar ræðu.

Ég spurði forsrh. út úr um daginn og bað hann um að tína það saman hvernig atvinnumarkaðurinn hefði þróast á yfirstandandi kjörtímabili, á þessum tímum góðæris og stóraukinnar veltu. Ég spurði m.a. vegna þess að framsóknarmenn hafa mjög gjarnan haldið á lofti kosningaloforði sínu frá síðustu kosningum um 12.000 ný störf, raunverulega loforð sem að minni hyggju gerði það að verkum að þeir unnu allgóðan sigur í síðustu kosningum. Hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. hefur sagt það hér í heyranda hljóði að þessi störf væru ekki 12.000, þau væru nær 14.000 á kjörtímabilinu, þannig að Framsfl. hefði skilað meiru. (JónK: 14.500.) 14.550 segir hv. þm. Jón Kristjánsson.

Þess vegna var mjög athyglivert að fá svör hæstv. forsrh. við fyrirspurnum mínum. Niðurstaðan er auðvitað ekki sú að störfin séu 12.000, 13.000 eða 14.000, hvað þá 14.500. Þau eru 9.300 talsins. Það er ekki bara þetta sem vekur athygli, þ.e. að Framsfl. skili ekki því sem hann lofaði, heldur að af þessum 9.300 störfum eru 2.500 talsins í hinum opinbera geira. Þessar tölur hæstv. forsrh., sem ég tek auðvitað fullt mark á þó að á seinni árum séu þetta áætlunartölur byggðar á áliti Þjóðhagsstofnunar, sýna að aukningin bara í hinum opinbera geira er upp á 1.250 störf milli áranna 1997 og 1998. Því beini ég sérstaklega orðum mínum til hv. þingmanna Sjálfstfl. og hv. 2. þm. Vesturl. og varaformanns fjárln. og spyr hvort þessi þróun sé í anda þess sem hann lagði upp með og hefur lagt upp með í stefnumörkun sinni í núverandi ríkisstjórn, hvort það hafi verið markmið ríkisstjórnarinnar í upphafi þessa kjörtímabils að fjölga störfum í hinum opinbera geira um 2.500. Ég hafði einhvern veginn skilið það þannig í allri orðræðu fyrir kosningar og á yfirstandandi kjörtímabili að það væri sérstakt markmið Sjálfstfl. að draga úr starfsemi ríkissjóðs og þess vegna væru menn að fara í umfangsmiklar sölur á ríkisfyrirtækjum og þess vegna væri verið að draga úr starfsemi ríkisins, auka þar hagkvæmni, samkeppni og ég veit ekki hvað þetta heitir nú allt saman.

En tölurnar tala sínu máli. Þær eru bara þessar. Og ég hef þær frá oddvita ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni.

[16:00]

Þriðji þátturinn, þriðji stórpólitíski þátturinn í þeim svörum sem ég fékk við fyrirspurnum mínum er þessi: Af þeim níu þúsund og eitthvað nýjum störfum sem til verða á þessu kjörtímabili verða 90% þeirra til í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er afraksturinn sem þessi ríkisstjórn, helmingaskiptastjórn Sjálfstfl. og Framsfl. skilar til hinna dreifðu byggða. Ég held að hv. þm. Jón Kristjánsson og hv. þm. Sjálfstfl. í fjárln. sem ég ætla af tillitssemi við þá að nefna ekki hér, hljóti að vera býsna ánægðir með þennan árangur. Það hefur bókstaflega orðið fækkun í störfum á Vestfjörðum, á Austfjörðum, í kjördæmi hv. þm. Jóns Kristjánssonar og ef ég man rétt á Norðurlandi vestra sömuleiðis, bókstafleg fækkun. Ég man ekki sérstaklega til þess að það hafi verið á kosningastefnuskrá Framsfl. þegar 12.000 störfunum var lofað að samhliða ætti að fækka störfum á Austurlandi, á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum. Var það í pakkanum líka? Var það í þeim kosningapakka sem Framsfl. vann sigur út á og ekki síst á Austurlandi. Ég man ekki betur en Framsfl. hafi fengið 45--47% atkvæða þar eystra. (JónK: 46%.) Það væri fróðlegt að heyra ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar heima í héraði þegar hann fer að hæla sér af árangrinum um 12.000 störfin og öll þau nýju störf sem hafa orðið til í hans fjórðungi. Nei, herra forseti, þetta er auðvitað stóralvarlegar tölur og mjög merkilegar tölur sem rétt er að halda mjög ákveðið til haga.

Í fyrsta lagi. Framsfl. sagði kjósendum ósatt. Hann hefur ekki skaffað það sem hann lofaði. Hann lofaði 12.000 störfum, störfin eru 9.000. Í öðru lagi. Sjálfstfl. lofaði að draga úr ríkisumsvifum. Það eru 2.500 ný störf af þessum 9.000. Með öðrum orðum, hinn almenni vinnumarkaður skilar ekki nema 6.500 þannig að Framsfl. er að skila helmingi af kosningaloforðinu. Og í þriðja lagi, öll störfin meira og minna, níu af hverjum tíu verða til á höfuðborgarsvæðinu. Eru menn virkilega mjög stoltir af þessum árangri? Hafa menn í ríkisstjórnarliðinu haldið ræður og hælt sér af þeirri niðurstöðu? Munu þeir gera það hér það sem eftir lifir þessa þings, á útmánuðum? Munu þeir fara heim í hérað með þessar tölur sérstaklega í farteskinu og halda merkjum hátt á lofti? Nei, auðvitað gera þeir það ekki. Auðvitað gera þeir það ekki. Af hverju er ég að tala um þetta, virðulegi forseti, í tengslum við fjárlagagerð komandi árs? Auðvitað vegna þess að þetta eru nátengd mál. Við erum að leggja inn í síðasta vetur þessa kjörtímabils og þess vegna er mjög brýnt að menn geri upp sakir í þessum efnum og haldi þessum veruleika mjög ákveðið til haga.

Í beinu samhengi við þetta, virðulegi forseti, er þeirri stefnumörkun haldið áfram, eins og ríkisstjórn hefur nefnt það, að draga úr umsvifum ríkisins með því að selja eignir. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um það, virðulegi forseti, því að menn hafa rætt það hér býsna skýrt og afdráttarlaust hvernig framkvæmd þeirra mála hefur verið og hvernig menn hafa staðið sig í því að koma þessum verðmætum ríkisins í verð. Með öðrum orðum, hvernig menn hafa staðið að því að selja ríkisfyrirtæki. Þar er náttúrlega um ömurlega hluti að ræða. Það var tvennt sem stóð upp úr í því sambandi. Í fyrsta lagi, sem allir voru sammála um, að tryggja ætti dreifða eignaraðild við söluna og í öðru lagi ætti að fá raunverð fyrir eignirnar. Hvorugt þessara markmiða hefur staðist. Dreifð eignaraðild? Jú, jú, menn segja að um 90 þús. Íslendingar skráðu sig fyrir hlut í Búnaðarbanka Íslands. En ætla menn að halda því fram að þessir 90 þús. Íslendingar hafi verið að skrá sig sem þátttakendur í atvinnulífinu? Ég hef lýst því þannig að sennilega hafi hálf íslenska þjóðin setið við eldhúsborðið sl. sunnudag með bls. 12 og 13 í Morgunblaðinu og klippt niður miðana frá Íslandsbanka og síðan haldið því áfram með því að selja fyrir fram kauprétt sinn í þessum banka. Menn hafa haldið því fram í þessum ræðustóli að það hafi verið merki þess að Íslendingar vildu vera þátttakendur í atvinnulífinu. Auðvitað er það ekki svo. Þetta er eins og ég held að DV hafi lýst því, eins konar keðjubréfafár og mikið lifandis skelfing væri þá einfaldara og eðlilegra ef menn vildu fara þá leið sem ég er sumpart mjög spenntur fyrir, að menn sendu þessi hlutabréf einfaldlega beint heim í pósthólf fólks. Hver fengi sinn hlut en þyrfti ekki að standa í því að láta bankann og verðbréfafyrirtæki forvalta það til okkar þannig að hver einasti maður fengi þá bréf upp á einhverja þúsundkalla, eins og þetta mun nú reynast. Það væri mannsbragur á því og ég væri til umræðu um slíka nálgun málsins en þessi aðferðafræði er náttúrlega eins og hver annar brandari. Ég er til í umræðu um hana hvar og hvenær sem er, og mun halda henni hátt á lofti.

Hitt atriðið sem menn segja vera ósamrýmanlegt, það að selja dreift og hitt að selja á raunvirði, að fá þær krónur fyrir eignir ríkissjóðs sem verðmæti þeirra segir til um. Ég er þessu heldur ekki sammála því að í þessu tilfelli erum við ekki að tala um að eignarhaldið verði dreift. Það verður þröngt og verður fróðlegt að sjá það og menn hafa verið að leita eftir svörum við því, t.d. hversu margir í raun eiga umtalsverða hluti í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þessi 49%. Ég man að örfáum dögum eftir þetta útboð kom einn söluaðila hæstv. fjmrh., Kaupþing sem auglýsti sérstaklega eftir kennitölum og fékk raunar greitt frá fjmrh. fyrir að standa að sölunni til sjálfs sín, og hældi sér af því að vera búinn að ná 14%. Það væri mjög fróðlegt að fá þær tölur allar upp á borðið, hversu í raun þessi eignaraðild væri dreifð. Það er ekki nóg að slá þessum hlutum fram og segja, það eru svo og svo mörg þúsund sem eiga í þessu. Hverjir eru hinir raunverulegu eigendur? Það er kjarni málsins og þannig eigum við að nálgast þetta viðmið. Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess að þessu á að halda áfram samkvæmt forsendum fjárlagafrv. Íslenskir aðalverktakar, sem er auðvitað feikiverðmætt fyrirtæki og fást væntanlega einhverjir milljarðar fyrir, eru hér á dagskrá. Því væri fróðlegt ef einhver stjórnarliða sem hefði á því þekkingu og vissu segði hvernig hugmyndin er að standa að þeirri sölu. Það er nauðsynlegt að fá það hér upp.

Önnur heimild til sölu, sem er auðvitað miklu minna mál í krónum talið en stórmál í grundvallaratriðum, er Stofnfiskur. Heimild er til þess í fjárlögunum að selja þetta fyrirtæki. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þær umræður sem hér hafa átt sér stað um þau mál. Hins vegar vitum við sem hér erum inni án þess ég reki það ítarlega, að öll umgjörð þessa fyrirtækis er með þeim hætti að það er fullkomlega alvörulaust og ábyrgðarlaust að setja það fyrirtæki á markaðinn við núverandi aðstæður. Ég segi það fullum fetum hér, virðulegi forseti, að það gengur á skjön við alla skynsemi og nánast við þingsköpin sjálf ef menn ætla sér að halda sig við þá tillögu sem hér er að óska heimildar frá hinu háa Alþingi um að setja þetta fyrirtæki á markað miðað við þær athugasemdir sem hafa sannanlega komið fram hjá Ríkisendurskoðun um færslu síðasta ársreiknings og hins veruleikans að hv. þm. hefur verið synjað um að fá upplýsingar um stöðu fyrirtækisins, fá upplýsingar um úttektir sem gerðar hafa verið á þessu fyrirtæki gagngert til að selja það. Ég spyr, virðulegi forseti, er raunverulega hægt að biðja um það að hv. þm. taki afstöðu til þeirra þátta á sama tíma og þeim er meinað, bókstaflega hafnað og neitað um að fá nauðsynlegar upplýsingar um stöðu þessa fyrirtækis til að geta gert sér grein fyrir því hvort hér sé skynsamlega að verki staðið? Nei, auðvitað ekki. Í því samhengi er rétt að geta þess að þingflokkur jafnaðarmanna hefur beðið Ríkisendurskoðun um að taka saman skýrslu samkvæmt 3. gr. laga um Ríkisendurskoðun um stöðu Stofnfisks og samskipti þess fyrirtækis, hlutafélags við landbrn. Það gefur augaleið að minni hyggju að þetta mál verður ekki hægt að afgreiða fyrr en sú skýrsla liggur fyrir. Ég vænti þess hins vegar að Ríkisendurskoðun geti klárað hana fljótt og vel því öll gögn eru við höndina. Ríkisendurskoðun hefur þegar farið í gegnum stöðu fyrirtækisins og er því í lófa lagið að koma þeim upplýsingum rakleiðis til þingmanna. Eftir þá skýrslu vænti ég þess að menn geti þá tekið um það efnislega afstöðu hvort skynsamlegt sé að fara þá leið sem ríkisstjórnin leggur til eður ei en á meðan ekki liggja fyrir grundvallarupplýsingar um málið er málið tæpast þingtækt, þinsköpum samkvæmt. Það er varla tækt hér, burt séð frá efnislegri afstöðu til þess.

Ég þarf að hraða mér, virðulegi forseti, þetta átti ekki að vera löng ræða en það er auðvitað af mörgu að taka.

Örfá atriði úr kjördæmi mínu. Það er komið til móts við ýmsar óskir sjúkrastofnana í kjördæmi mínu og var tími til kominn. Betur má þó ef duga skal. Nefni ég þar Sólvang í Hafnarfirði sérstaklega til sögu en eitt er það atriði sem ég vildi hins vegar spyrja um hvað varðar heilbrigðismálin ef hæstv. heilbrrh. er einhvers staðar nærri ...

(Forseti (ÓE): Hún er í húsinu.)

Hún er í húsinu. Þá mundi ég kannski geyma mér það þar til rétt á eftir, því það er ein spurning sem ég vildi varpa til hennar um þau efni. En það er annað sem hins vegar er ekki hægt að ganga fram hjá hvað varðar Reykjaneskjördæmi og fjárlögin og það er staða málefna fatlaðra í því kjördæmi. Hún er með slíkum eindæmum og fullkomlega fyrir neðan allar hellur að þar þarf auðvitað stórátak og alveg ljóst að sá málaflokkur verður ekki fluttur heim í hérað fyrr en búið verður að búa þannig um hnúta í Reykjaneskjördæmi að allri grundvallarþjónustu sé a.m.k. sæmilega til haga haldið en það er langur vegur frá að svo sé í dag.

Það er hins vegar merkilegt í þessu samhengi að Reykjaneskjördæmi, og það kom fram í býsna merkilegri úttekt sem fylgdi byggðaáætlun og umræðu um byggðamál, er það kjördæmi eitt á landinu sem fer sýnu verst út úr ákvörðunum og aðgerðum ríkisvaldsins. Ekki einasta er Reykjaneskjördæmi með langfæsta opinbera starfsmenn, hlutfallslega langsamlega fæsta opinbera starfsmenn, heldur hitt líka að í þróun fjárlaga skipt eftir kjördæmum kemur hlutfallslega minna og minna í hlut Reykjaneskjördæmis á yfirstandandi kjörtímabili en annarra kjördæma. Ég veit ekki hverju er um að kenna. Kannski eru margar skýringar á þessu því ég trúi því ekki að þingmenn Reykjaneskjördæmis í stjórnarliðinu séu svona slappir. Það getur svo sem vel verið að það sé bara skýringin. Að þeir standi sig ekki í stykkinu. Kannski er það bara sennilegasta skýringin. Sennilega er það bara alveg hárrétt. Það er eina skýringin. Það rifjar upp fyrir mér að forseti bæjarstjórnar í Kópavogi hélt þessu fram í prófkjöri sem haldið var hjá Sjálfstfl. ekki fyrir margt löngu, að þingmenn Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi væru bara handónýtir og eigum við ekki bara að segja að það sé skýringin á þessu? (Gripið fram í: Skipta um þá?) Skipta um þá, segir hv. þm. og ég held að vit væri í því en það verður náttúrlega ekki gert nema með því að kjósa aðra flokka og þá einkum og sér í lagi okkur jafnaðarmenn.

Ég fer hratt yfir sögu. Hæstv. heilbrrh. er mætt til leiks og ég ætla nú fyrst að hæla henni og þakka henni fyrir (Gripið fram í: Fyrir síðast?) fyrir síðast, en þar fyrir utan hversu vel hún hefur staðið að verki núna þótt hægt hafi farið að stað varðandi byggingu barnaspítala. Þar er um mjög gott mál að ræða sem ég styð heils hugar. Að vísu tók dálítinn tíma fyrir hana að setja í gang en hún er loksins komin í gang og það er fagnaðarefni. Ég held að þetta sé mál sem við allir þingmenn hljótum að fagna af mikilli einlægni.

Um hitt sem ég vildi spyrja hana sérstaklega er staða heilsugæslunnar í Hafnarfirði. Þannig er mál með vexti að viðræður hafa átt sér stað milli bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og heilbrrn. um að Hafnarfjörður verði reynslusveitarfélag á vettvangi heilsugæslunnar. Allt gott um það að segja en ég hef haft af því spurnir að samhliða eru uppi áform um það af hálfu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði, þ.e. meiri hluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, flokksbróður hæstv. ráðherra sem er formaður bæjarráðs þar syðra og þeirra sjálfstæðismanna um að loka raunverulega heilsugæslunni á Sólvangi, hætta starfrækslu heilsugæslunnar á Sólvangi og flytja þá starfsemi í heilu lagi í annað húsnæði í miðbæ Hafnarfjarðar. Ég kann ekki á ástæður alls þessa. Ég vil þó minna á að nú loksins sér fyrir endann á húsnæðisvandamálum heilsugæslunnar með viðbótarhúsnæði sem hefur tekið allt of langan tíma að koma í gagnið, og einnig hitt að tveir nýir læknar eru að koma þar til starfa sem mun bæta verulega þjónustuna en þar hefur verið á brattann að sækja.

[16:15]

Ég spyr: Er heilbrrn. sammála bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði? Er það kannski með vilja og vitund heilbrrn. að þessi lokun heilsugæslunnar á Sólvangi eigi sér stað og tilflutningur í nýtt húsnæði sem þarf að kaupa fyrir tugi eða hundruð milljónir króna? Mér er kunnugt um að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði áformi þá að nýta það húsnæði sem er tíu ára gamalt --- mér er það mjög minnisstætt því ég var bæjarstjóri í Hafnarfirði þegar það var opnað 1987 eftir langan byggingartíma --- loka því sem heilsugæslustöð en breyta í einhvers konar óskilgreinda öldrunarþjónustu, tómstundir og félagsstarf og sitthvað annað. Sem þýðir þá að sú starfsemi verður væntanlega á hendi bæjarfélagsins og á kostnað þess, mestan part húsnæðið og að langstærstum hluta reksturinn.

Og þá spyr ég: Er fyrirliggjandi samkomulag eða einhver drög hjá heilbrrn. um að Hafnarfjarðarbær kaupi húsnæði núverandi heilsugæslu á Sólvangi og að ríkissjóður ætli að leggja 100 eða 200 millj. í nýtt húsnæði í miðbæ Hafnarfjarðar með kostnaðarskiptingu 85:15? Ég sé að þess er hvergi getið í fjárlögum og þess vegna spyr ég því að mér skilst af lestri bæjarblaða í Hafnarfirði að mál séu komin á fljúgandi ferð þar og menn áformi að taka prinsippákvarðanir í þessum efnum mjög fljótlega.

Því vil ég spyrja: Er að vænta tillagna í þessa veru, óskir um heimildir, um hugsanlega sölu og kaup á nýju húsnæði við 3. umr. fjárlaganna? Þetta var spurning mín um þetta efni.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um hafnamál, það verður bara í stikkorðastíl. Það eru mál sem væntanlega munu koma hér fyrir í endurskoðaðri hafnaáætlun. Það er þó rétt að nefna að hafnaáætlun er í samgn. og það er auðvitað brýnt að klára hana og ljúka afgreiðslu hennar fyrir jólaleyfið því ella er engin áætlun fyrir næsta ár. Og menn hafa þá þann tæknilega valkost, ef ekki tekst að ljúka yfirferð og samþykkt þeirrar hafnaáætlunar, að fjárln. verður að taka þau mál upp við 3. umr. og lista upp þau verkefni sem á að ráðast í á næsta ári.

Ég vil bara segja það hér og nú að ég mun gæta þess og tryggja að sú ósvífni sem fyrir liggur í tillögum að hafnaáætlun að sveitarfélög á borð við Hafnarfjörð, Kópavog og Garðabæ séu fullkomlega núlluð þar út og séu ekki styrkhæf lengur --- ég mun flytja brtt. í þá veru sem mun snúa þeim fráleita veruleika við.

Rétt í bláendann, virðulegi forseti, menn eru að segja mér hér á göngunum að ný skoðanakönnun hafi komið fram. Og enn þá sé það þannig að þessi ríkisstjórn sé með samtals um 70% fylgi. Það verður ekki mikið lengur, virðulegi forseti.