Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 16:18:47 (2206)

1998-12-12 16:18:47# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[16:18]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson fór nokkrum orðum í ræðu sinni um fjölgun opinberra starfsmanna og að þeim hefði fjölgað lítið úti á landi en aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Það er allt saman hárrétt og þetta veldur áhyggjum.

Ég veit ekki hvort hv. þingmenn Alþfl. eða jafnaðarmannaflokksins hafa tekið eftir þeirri miklu umræðu sem hefur farið fram um byggðamál en við höfum lagt mjög mikla áherslu á að snúa þurfi vörn í sókn. En auðvitað eru til fjölmargar skýringar á byggðaþróuninni. Meðal annars liggur fyrir sú skýring að í grunnatvinnuvegunum, eins og landbúnaði og sjávarútvegi hefur orðið fækkun starfsmanna í þeim greinum með auknum tækniframförum, annars vegar í sjávarútvegi og raunar líka í landbúnaði. Það hafa einnig orðið framfarir þar en þó hefur samdráttur aðallega orðið í landbúnaði vegna þess samdráttar sem orðið hefur í sölu landbúnaðarafurða.

Hins vegar hefur ekki tekist að fylgja þeim breytingum eftir með því að fjölga opinberum starfsmönnum, enda held ég að það út af fyrir sig eigi ekki að vera tilgangur í sjálfu sér, að reyna að fjölga opinberum starfsmönnum heldur er aðalatriðið úti á landi að tryggja atvinnu við arðbær störf. Fjölgun opinberra starfsmanna á höfuðborgarsvæðinu er náttúrlega fyrst og fremst vegna þess að heilbrigðiskerfið hefur verið að þenjast út og skólarnir hafa verið að stækka. Háskóli Íslands og fleiri háskólar hafa verið byggðir upp á höfuðborgarsvæðinu og ég sé ekkert nema allt jákvætt við það að þessar opinberu stofnanir hafi byggst upp og að stöðugildum hafi fjölgað þar.