Utandagskrárumræður og viðvera stjórnarþingmanna

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:06:33 (3924)

2000-02-03 11:06:33# 125. lþ. 56.91 fundur 275#B utandagskrárumræður og viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs um störf þingsins er önnur en hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því hvernig þingmenn stjórnarflokkanna bregðast við umræðu á Alþingi. Í gær var beðið um utandagskrárumræðu og þingmenn sem komu í umræðuna atyrtust út í þá beiðni og kvörtuðu undan því að vera kallaðir til utandagskrárumræðu um mál sem hefði verið rætt í haust. Þetta var stærsta mál haustþingsins og þingmaður var að bregðast við ummælum forsvarsmanns Norsk Hydro í fjölmiðlum og taldi þau varpa nýju ljósi á þetta stóra mál.

Í dag ræðum við um eitt stærsta deilumál þjóðarinnar sem er stjórn fiskveiða og tilflutningur auðs og fjármagns vegna þess hvernig þeim málum er háttað. Hvað gerist þá hér? Það er komið og sagt: ,,Hvað eruð þið að ræða þetta? Málið er í nefnd. Hvað er Alþingi að taka þetta til umræðu?`` Ég verð að segja að þegar ráðherra sjávarútvegsmála fer síðan að telja hausa á Alþingi og bera saman við dómstóla, þá er mér allri lokið. Mér finnst það mikið umhugsunarefni hvernig á að bregðast við þessum yfirráðum stjórnarmeirihlutans. Það er eðlilegt að þingmenn séu ósammála í pólitískum málum. Það er fullkomlega óásættanlegt hvernig þeir bregðast við því að Alþingi er stofnun lýðræðis og málfrelsis. Ég óska eftir því, herra forseti, að forseti beiti sér fyrir umræðu um þessi mál hjá stjórnarflokkunum og þakka fyrir.