Utandagskrárumræður og viðvera stjórnarþingmanna

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:09:23 (3926)

2000-02-03 11:09:23# 125. lþ. 56.91 fundur 275#B utandagskrárumræður og viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil segja það um störf þingsins í fyrsta lagi að mér finnst menn ganga óþarflega langt í því að harma fjarveru Framsfl. Ég sýti það ekkert stórfellt þó að þeir séu ekki hér sem oftast í ræðustólnum.

Í öðru lagi tek ég undir orð hv. síðasta ræðumanns. Ég tel ástæðu til að vekja á því athygli í umræðum um störf Alþingis að það hefur gerst ærið oft nú á síðustu dögum að amast er við því að umræður fari hér fram um mikilvæg þjóðmál. Höfð eru uppi þau ummæli sérstaklega af hálfu þingmanna stjórnarliðsins að umræður séu óþarfar, að menn séu orðnir hundleiðir á umræðum um þetta eða hitt málið og þar fram eftir götunum. Þetta er í rauninni í anda þess lýðræðisskilnings sem mjög er ástundaður um þessar mundir af t.d. ráðherrum í ríkisstjórn, þ.e. að taka illa allri gagnrýni á störf sín og verða það jafnan fyrst fyrir að velta því fyrir sér hvort ekki sé einhvern veginn hægt að þagga hana niður, t.d. með því að slá af þá stofnun sem uppi hefur eitthvert andóf eða múður.

Herra forseti. Maður fer að velta því fyrir sér á hvaða braut lýðræðið á Íslandi er ef svo er komið að jafnvel þingmenn sjálfir amast við því að á Alþingi, einum meginvettvangi pólitískra skoðanaskipta í landinu, sé slíkum umræðum uppi haldið. Ég held að þeir hv. þm. ættu að fara á námskeið og reyna að læra þær staðreyndir að Alþingi er ekki bara löggjafarsamkoma. Það er líka mikilvægasti vettvangur pólitískra rökræðna og skoðanaskipta í landinu og hefur lengi verið. Það er innbyggt í þingsköpin og með margvíslegum hætti tryggt að slík skoðanaskipti eigi að geta farið hér fram.

Ég tek það fram að lokum að ekki er við hæstv. forseta að sakast í þessum efnum því að forseti hefur einmitt gert rétt í því að bregðast lipurlega við þegar farið er fram á slíkar umræður.