Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:35:30 (3951)

2000-02-03 12:35:30# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:35]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um að það er mjög mikilvægt og bráðnauðsynlegt að finna ódýrustu leiðina og ódýrasta kerfið. Hann fullyrðir að núverandi kerfi sé ódýrast. Það er það ekki vegna þess að fjöldi útgerða hafa fengið kvótann gefins, aldrei borgað fyrir neitt og þær eru í samkeppni við aðrar útgerðir sem hafa borgað allt upp í 800 kr. fyrir kílóið af varanlegum kvóta. Á meðan sú staða varir, og hún varir í 20--30 ár, er hægt að reka fyrirtæki illa sem fékk kvótann gefins. Ár eftir ár eftir ár er hægt að reka það illa. Núverandi kerfi er því ekki eins hagstætt og það gæti orðið. Það er reyndar hagstætt og miklu hagstæðara en sóknarmarkskerfi, ég er sammála því. Ég er alveg sammála því að frekar eigi að taka aflamarkskerfi en sóknarmarkskerfi. En það er ekki eins hagstætt og það gæti verið, sérstaklega vegna þess að menn eru búnir að setja óskaplegar hömlur á framsal og alls konar kvaðir á útgerðina, t.d. eignarhald útlendinga o.s.frv. Allt eru þetta hömlur sem hljóta að minnka arðsemi útgerðarinnar. Ég er sannfærður um að ef útgerðin fengi algerlega frjálst spil eins og annar atvinnuvegur gæti hún skilað enn meiri hagnaði og miklu meiri hagnaði en í dag.

Hv. þm. sagði að ekki væri ástæða til að gera aðrar tilraunir. Það er ekki lagt annað til í þessari tillögu en að skoða kosti og galla, ekki er annað lagt til. Það er ekki lagt til að þetta skuli tekið upp á morgun. Það á að skoða kosti og galla og ég ætla þessari nefnd að fara í gegnum það.

Síðan sagði hv. þm. að enginn arður yrði í útgerðinni. Að sjálfsögðu bjóða menn ekki meira í kvótann en svo að fyrirtækin skili hagnaði. Þeir væru vitlausir annars. Útgerðin mun að sjálfsögðu bjóða það verð í kvótann sem miðast við gefinn hagnað. Það er þekkt um allan heim.