Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:56:28 (3955)

2000-02-03 12:56:28# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:56]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um frjálst framsal og hann hefði ekki trú á því að það bætti neitt. Ég gat reyndar ekki komið inn í frjálst framsal í framsöguræðu minni, en það er ákveðinn kafli um það í greinargerðinni. Ljóst er að ef útgerðarmaður á tvö skip og gæti veitt aflann með öðru skipinu þá borgar sig að gera út eitt skip en ekki tvö. Það er jafnaugljóst að ef tveir útgerðarmenn eiga tvö skip og annar gæti veitt en hinn lagt skipi sínu, þá er hagkvæmara ef eitt skip gæti veitt allan aflann. Framsal er því nauðsynlegt til að arðsemi sé í kerfinu og þá er alveg sama hvort um er að ræða aflamark eða sóknarmark. Eftir því sem framsalið er frjálsara, því meiri hagnaður. Það skyldi ekki vera að minnkandi hagnaður útgerðarfyrirtækja undanfarið sé vegna þess að búið er að setja upp kvótaþing og búið að skerða mjög verulega framsalsheimildir fyrirtækjanna. Þegar fyrirtækin græða geta þau að sjálfsögðu borgað sjómönnum hærri laun.

Hv. þm. óttast að stóru útgerðirnar bindist samtökum um kaup í kvóta á hærra verði en aðrir. Það þýðir að þau verða að veiða enn þá hagkvæmar, sem þau geta ekki samanber niðurstöður sem sýna að stóru fyrirtækin hafa 20--30 kr. hagnað af hverju þorskígildistonni sem þau veiða. Þau mundu tapa og þá kæmu minni spámenn og trillusjómenn og slíkir sem mundu bjóða betur næst og fara upp fyrir þá. Þessi röksemd gengur því ekki.

Síðan ræddi hv. þm. um hraðskreiða báta. Þar kemur hann inn á öryggismál sem þarf að taka sérstaklega fyrir. En það er önnur umræða hvaða skip eru örugg og hvaða skip eigi að gera út á vissa veiði. Það er fráleitt að trillur veiði karfa. Það held ég að allir átti sig á. Það þarf togara til að veiða karfa og þeir mundu þá veiða karfa og kaupa kvóta.