Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 14:19:37 (3970)

2000-02-03 14:19:37# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að hv. þm. hefur ekki mikla trú á markaði og það er honum alveg í sjálfsvald sett að hafa ekki mikla trú á markaði. Þeir höfðu það heldur ekki austur í Sovét og það gekk nú eins og menn vita með antimarkaðsvæðinguna þar að stýra öllu að ofan frá grænum skrifborðum.

Ég hef aftur á móti þá trú að markaðurinn geti leyst mikið af þeim vandamálum sem við erum að glíma við vegna þess að hann finnur alltaf rétta verðið á vöru og þjónustu.

Varðandi það að menn hafi fjárfest í Búnaðarbankanum og þar eigi ,,aðeins`` 40 þúsund manns hlutabréf enn, þá er það aldeilis hellingur og hefði einhver átt að segja fyrir svo sem eins og þrem, fjórum árum að eitt hlutafélag á Íslandi hefði selt 40 þúsund manns varanlega hlutabréf. Sá fjöldi hefur því væntanlega keypt vegna þess að fólk hefur mikla trú á fyrirtækinu og arðsemi þess.

Ég held því að Íslendingar séu mjög móttækilegir fyrir einmitt markaði og séu tilbúnir til þess að láta markaðinn ráða verðlagningu á vöru og þjónustu. Þar á meðal t.d. í því kerfi sem hér er lagt til, allsherjarmarkaðsvæðing á kvótanum, sem muni lækka verðið og flytja veiðiheimildir til þeirra sem geta veitt fiskinn ódýrast. Það er engin önnur leið en markaðurinn, hvorki á grænum skrifborðum sovétherranna á sínum tíma né annars staðar, sem hefur sýnt sig að finna rétta verðið á slíkum vörum.