Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:56:05 (4020)

2000-02-03 18:56:05# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:56]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Okkur hæstv. sjútvrh. greinir á um að framþróun í fiskveiðum byggist á framsalsheimildum, þar ber verulega í milli, þ.e. að tilfærsla innan útgerðarinnar muni leiða til góðs. Við getum litið til skuldaaukningar í útgerðinni, eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson kom inn á áðan í ræðu sinni, að ekki hafi verið gerð grein fyrir hvar um 30 milljarða skuldir útgerðarinnar af um 60 milljörðum hafi lent. Og það er álit manna að það sé m.a. hluti málsins, eins og við urðum vitni að fyrir nokkrum dögum þegar einstaklingur hættir í útgerð og fær í sinn hlut hundruð milljóna.

Að lokum langar mig til að vitna til hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, fyrrv. formanns Alþfl., sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Framsal aflaheimilda er óaðskiljanlegur hluti aflamarkskerfisins. Sé framsal aflaheimilda bannað er eins gott að leggja aflamarkskerfið [þ.e. kvótakerfið] niður og taka upp annað stýrikerfi, því aflamarkskerfið þjónar þá ekki lengur neinum tilgangi.``

Þetta er ein skoðun úr þeirri ágætu fylkingu, Samfylkingunni.