Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:44:15 (4973)

2000-03-07 13:44:15# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), KPál
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ef sá skilningur minn á þessu máli er réttur, að ekki sé hægt að upplýsa um það hvernig sameign þjóðarinnar hefur verið veðsett samkvæmt lögum um samningsveð, þá kemur það mér mjög á óvart. Ég var einn af þeim sem töldu þetta mál á sínum tíma varasamt og taldi þá æskilegra að þessum málum hefði verið á annan veg farið en svo varð ekki, en að sjálfsögðu taldi ég eins og fleiri eðlilegt að sú reynsla sem mundi skapast með þessum lögum segði okkur hvort við hefðum verið á réttri leið eða ekki.

Veðsetning aflaheimilda sem á sínum tíma var samþykkt með því fororði að það væri einungis hægt með skipum þýddi í mínum huga að verið væri að veðsetja fiskinn í sjónum á nákvæmlega sama hátt og skipið. Þess vegna verð ég að taka undir með hv. fyrirspyrjanda að það sé krafa að þær upplýsingar sem til eru og verða að vera til um það hvernig sameign þjóðarinnar er veðsett geti legið fyrir í þinginu.