Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 16:09:39 (5019)

2000-03-07 16:09:39# 125. lþ. 73.7 fundur 359. mál: #A almenn hegningarlög# (vitnavernd, barnaklám o.fl.) frv. 39/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[16:09]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil líkt og þeir tveir hv. þingmenn sem hafa talað á undan mér fagna fram komnu frv. hæstv. dómsmrh. og sérstaklega þá kannski --- hér eru reyndar afskaplega margir hlutir sem eru greinilega allir til bóta. En ég vil sérstaklega gera að umræðuefni 6. gr. frv. sem fjallar um 210. gr. almennra hegningarlaga. Þar er ég að tala um barnaklámið.

Nú vill svo til að þegar hæstv. dómsmrh. opnar hegningarlögin eins og hér er gert þá fylgja fleiri frv. í kjölfarið. Þá er ég ekki einungis að tala um frv. hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar sem lagt hefur verið fram í þinginu heldur á ég einnig við frv. til laga sem útbýtt er á þingi í dag á þskj. 693. Þar höfum við, tveir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman, lagt til breytingar á 206. gr. og 210. gr. sem er hér til umfjöllunar. Þó ég sé ekki að fylgja úr hlaði því frv. nú þá langar mig til að orða hér möguleika á enn þyngri refsingu við birtingu klámefnis en gert er ráð fyrir í almennum hegningarlögum í dag. Ég sé að hæstv. ráðherra gerir ekki ráð fyrir breytingu á grunnrefsingunni samkvæmt þeim lögum sem gilda í dag sem er ekki nema sex mánuðir. En í 1. mgr. 210. gr. laganna segir, sem leyfi forseta:

,,Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.``

Þessari refsingu tel ég rétt að breyta. Ég tel rétt að þyngja hana um sex mánuði, þ.e. hækka hana upp í eitt ár. Það kemur fram í frv. því sem við flytjum og komum til með að fylgja úr hlaði innan fárra daga að við teljum að hér þurfi enn þyngri refsingu en þessa sex mánuði. Að sama skapi fagna ég þó þeirri þyngingu sem ráðherra leggur til vegna barnakláms, þ.e. að það varði fangelsi allt að tveimur árum.

Ég fagna sömuleiðis þeirri viðbót sem hæstv. ráðherra hefur fylgt úr hlaði með 4. mgr. 210. gr., þ.e. það hefur verið um ágalla að ræða í núgildandi lögum þar sem ekki hefur verið talið refsivert eða sektarvert að flytja inn ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum. Nú er búið að setja undir þann leka og er það sannarlega tímabært.

Ég fagna því að nú skuli hæstv. dómsmrh. hafa opnað þessar greinar hegningarlaganna. Ég tel að þær gefi okkur tækifæri til að leggja fram breytingar sem mér heyrist og sýnist að verði að öllu leyti til bóta í þessum málaflokki sem við höfum kannski hingað til ekki náð að girða nægilega vel fyrir.